Almennur bændafundur að Laugalandi 25. feb. 2004

Sigurður Loftsson, formaður, setti fund kl. 21.00
Bauð fundarmenn velkomna og frummælendur, þá Egil Sigurðsson á Berustöðum og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóra LK.


Gerði tillögu um að Elvar Eyvindsson stjórnaði fundi.


Þetta tekið fyrir:


  1. Egill Sigurðsson rakti samantekt og störf  “mjólkurhópsins” sem nú hefur skilað niðurstöðum að undanfara nýs búvörusamnings. Hann gat þess m.a. að um 74% kúabúa í landinu hafa keypt og selt framleiðslurétt síðustu ár. Handhafabreytingar  á greiðslumarki hafa á tímabili núverandi samnings verið um 21 milljón lítra, án þess að greiðslumark færðist milli lögbýla.  Þetta segir nokkuð um öfluga endurnýjun í stéttinni.
    Mjólkurinnleggjendum hefur fækkað úr 1.185 árið 1998 í 893 í árslok 2003.
    Mat nefndarinnar er  að,  “sú þróun sem átt hefur sér stað á gildistíma núgildandi samnings sé um margt jákvæð og að styrkleikar núverandi fyrirkomulags vegi þyngra en veikleikar.”
    Egill ræddi nokkuð um form stuðnings í greininni.  Nokkrar leiðir hafa verið ræddar.   Í skýrslunni segir að… “ ætla verður að stærsti hluti stuðningsins verði greiddur á grunni greiðslumarksins eins og nú er. Þó verða aðrar leiðir skoðaðar t.d. að greiða lágar greiðslur á alla innvegna mjólk og greiða á skráðar kýr.”
    Hann kvaðst sjálfur ekki spenntur fyrir þeirri leið að greiða út á land.
    Hvað varðar verðlagningu hefur ekki verið ákveðið hvort beingreiðslur verða tengdar afurðaverði eins og nú er, eða tengdar vísitölu neysluverðs.
    Einnig er óvissa um starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins.
    Hægt er að nálgast skýrsluna í heild á vef landbúnaðarráðuneytisins.


  2. Snorri Sigurðsson. Hann gat um minni mjólkurframleiðslu nú en árið áður.
    Drykkjarmjólkursala er því miður hratt minnkandi þessa mánuði.   Einnig hefur söluaukning osta verið minni síðustu mánuði eftir nær samfellda söluaukningu síðasta áratug. Hann  taldi afar ólíklegt að næðist aukning í rétti á landsvísu. Réttur yfir landið er 105 milljón lítrar.
    Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins hefur úr um 40 milljónum að spila, en er í nokkrum fjárskorti miðað við umfang og þarfir.
    Flokkun nautgripakjöts er of misjöfn milli sláturhúsa að mati Snorra.  Brýnt væri þess vegna að fá nýtt kjötmat.
    Aðalfundur LK verður haldinn á Akureyri að þessu sinni, dagana 16. og 17. apríl.


    Tekið kaffihlé.


  3. Umræður:
    Arnar Bjarni Eiríksson gat um að aukin skuldsetning kúabúa væri talin galli núverandi kerfis. Hann sagði fyrir 10 árum hefði ástand verið talið svo slæmt að ekkert hefði verið hægt að breyta eða fjárfesta.  Að menn treystu sér út í framkvæmdir nú gæti vart talist slæmt. Kvaðst spyrja sjálfan sig hver væri stefna ríkisvaldsins. Líkast því að ríkið vissi ekki sjálft hvert skuli stefna.  Varla væri stefnan sú að greiða út á “hrífusköft” í stað framleiðslu. Gagnrýndi gjaldtöku fyrir einstaklingsmerkingar.  Taldi ófært að Bændasamtökin gætu vaðið í vasa bænda beint og tekið af beingreiðslum.


    Sigurlaug í Nýjabæ kom inn á búfjáreftirlit. Fannst komið of mikið bákn kringum það og akstur. Einnig að eftirlitsaðilar væru  það margir að hugsanlega færu verk þeirra að skarast.


    Elvar Eyvindsson kom inn á stærð búa. Ríkið gæti vart farið fram á lækkun vöruverðs en í hinu orðinu talað um þak á stærð búa.


    Þorfinnur Þórarinsson spurði um grænar greiðslur, einnig um stærð búa.  Það skipti máli hvað miðað væri við, hvort einn eða fleiri aðilar stæðu að búrekstri.
     
    Sigurjón Hjaltason taldi naut sem færu  í UN 1 A  ættu einnig  að njóta styrks.
    Hann kvaðst ekki vilja sjá “verksmiðjur” í mjólkurframleiðslu en það sem menn væru að gera í dag væri að sínu áliti innan skynsamlegra marka.


    Egill taldi það ákveðinn veikleika að eiginfjárhlutfall  greinarinnar stendur lágt. Taldi alltaf verða dýrara að framleiða hér mjólk. Menn gætu ekki miðað sig beint við bestu framleiðslusvæði Evrópu.  Við yrðum að reyna að fá það metið í alþjóðasamningum hvar við værum staðsett.
    Form núverandi stuðnings ber að halda í. Ekkert í núverandi alþjóðasamningum kallar á breytingu núverandi kerfis.
    Fimm til sjö ár hafa verið sett inn sem tímalengd nýs samnings. Kvaðst sjálfur gera kröfu um þriðja sjö ára samninginn. Hámarksbústærð væri að hans mati fjósið sjálft og sú eining.  Eignarhald væri svo mismunandi  að ekki væri hægt að miða við annað. Hann taldi hugsanlega mögulegt að nota vísitölu neysluverðs sem viðmið í stuðningi ríkisins, jafnvel væri meiri trygging fólgin í því formi. Honum fannst sjálfum kvótaverð  of hátt í dag.


    Snorri taldi hægt að ræða einföldun eftirlits á ákveðnum þáttum en að bakka til baka eða hafa framkvæmd eftirlits á einhverju árabili væri ekki framkvæmanlegt í dag.
    Tók undir sjónarmið Sigurjóns að nýr hugsanlegur stuðningur við nautakjöt yrði að byggja á nýju kjötmati.


    Sveinn í Reykjahlíð taldi skýrsluna jafnvel hagstæðari bændum en reikna hefði mátt með.
    Með núverandi kerfi væru málin gegnsæ, og eftirlitsþörf í algeru lágmarki. Hann sagði nauðsynlegt að fá eins langan samning og mögulegt væri. Einnig að ef breytingar yrðu á alþjóðasamningum þá yrði að gefa langan aðlögunartíma.
    Varðandi nautakjöt þá þarf að taka ákvörðun fljótt um stuðning, hvort sem farið yrði út í viðauka við mjólkursamning, eða aðra leið. Þessi búgrein legðist annars af.


    Karl Jónsson taldi nauðsynlegt varðandi einstaklingsmerkingar að gera kröfu um rafræna lesningu (örmerki) í nýjum mjaltakerfum.


    Magnús Sigurðsson sagði núverandi samning hafa verið hagstæðan. Tekist hefði vel að hagræða í mjólkuriðnaðinum og þess vegna verið hægt að greiða yfirverð til bænda.


    Pálmi Vilhjálmsson frá SAM. Árið 1992 hefði verið sett hagræðingarkrafa. Til 1998 var nær allri hagræðingu skilað til neytenda. Erfiðlega gekk að ná henni til bænda. Frá 1998 hefur hagræðing hins vegar  skilað sér að nokkru til bænda með arðgreiðslum. Nú verður iðnaðurinn þvingaður til hagræðingar, annað hvort með auknum innflutningi eða breytingu á verðlagningu. 
     
    Guðmundur Lárusson taldi það afrek ef næðist áfram að landa nýjum samningi á svipuðum nótum. Taldi það liggja á borðinu að ef stefnt væri saman MBF og MS yrði hægt að ná 2 til 3 krónum í hagræðingu. Hann taldi tollvernd ekki eilífa en menn væru kraftaverkamenn ef næðust sambærilegir samningar áfram.


    Gauti Gunnarsson spurði hvort verið gæti að Hvanneyraskóli væri 30 árum á eftir tímanum. Taldi nauðsynlegt að “uppfæra” ýmislegt hjá þeirri stofnun.


    Runólfur Sigursveinsson taldi árangur út af fyrir sig að ná þessu áliti sem drögin væru.   Taldi nauðsynlegt að vera vakandi fyrir þeim breytingum sem eru að verða í Evrópu í stuðningsformi,  jafnvel þó næðist nýr mjólkusamningur næstu 5 til 7 árin á svipuðum nótum og í dag.  Ef slíkt næðist væri það mjög góður árangur. Skýrslan væri vönduð og unnin af mörgum aðilum.


    Gunnar Eiríksson mælti fyrir tillögu frá félagsráði, (sjá tillögu).
    Samþykkt án móttatkvæða.


    Þórir á Selalæk taldi drögin líta betur út en búast mátti við.  Varðandi kvótaverð taldi hann tal Ara og Guðna um hátt kvótaverð  illþolandi.  Núverandi samningar hefðu þrátt fyrir allt skilað framþróun og hagræðingu. Við hefðum í raun borgað hagræðinguna sjálf og hún væri ekki reiknuð inn í verð til bænda.


    Snorri sagði ekki enn búið að finna endanlega lausn varðandi örmerkin.  Vantar enn samræmingu og staðla.
    Tók undir að það væri  í raun afrek að ná öllum þessum aðilum til að undirrita drögin.  Þarna væru fulltrúar mjög ólíkra hópa.
    Varðandi LK-vefinn og Kýrhausinn, þá taldi hann nauðsynlegt að þátttakendur huguðu vel að framsetningu.


    Egill sagði mikinn tíma hafa  farið í umræðu um hátt kvótaverð.  Hafa bæri í huga að úreldingarkostnaður (kvótakaup )  væri ekki reiknaður inn í afurðaverð til framleiðenda. 


    Höskuldur á Stóra-Ármóti taldi slæmt að forsvarsmenn bænda töluðu sumir á neikvæðum nótum um núverandi kerfi.


Fundarstjóri sleit fundi og þakkaði framsögumönnum.
Fundarmenn voru um 70 talsins.

Ritari  Valdimar Guðjónsson


back to top