Áhrif loftslagsbreytinga á íslenskan landbúnað að mestu jákvæð

Í kjölfar útgáfu fjórðu úttektar Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) skipaði Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra vísindanefnd um loftslagsbreytingar á haustdögum 2007 og fól henni að skila skýrslu um líkleg áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi. Nefndin skilaði skýrslu fyrir skömmu og í henni kemur fram að áhrif hlýnunar á gróðurfar eru þegar umtalsverð. Aukning hefur orðið á gróðri á síðustu árum og áratugum og samtímis hafa skógarmörk birkis færst ofar í landið. Að minnsta kosti ein fjallaplanta sem fylgst hefur verið með, fjallkrækill, er talin á undanhaldi vegna hlýnunar. Þá hafa aðstæður til kornræktar og skógræktar batnað með hlýnandi loftslagi.

Áframhaldandi hlýnun mun almennt hafa jákvæð áhrif á gróðurþekju landsins. Útbreiðslumörk plantna færast ofar í landið en háfjallategundir geta látið undan síga. Breytingar á snjóa- og svellalögum geta haft neikvæð áhrif á tiltekin gróðurlendi, s.s. snjódældagróður og rústamýrar hálendisins.


Áhrif loftslagsbreytinga á landbúnað verða líklega að mestu leyti jákvæð. Gera má ráð fyrir aukinni uppskeru á þeim fóður og matjurtum sem nú eru ræktaðar auk þess sem nýjar nytjategundir verða mögulegar. Skógrækt nýtur góðs af væntanlegum loftslagsbreytingum og mögulegt verður að rækta trjátegundir sem verið hafa á jaðri þolsviðs síns. Loftslagsbreytingum fylgja þó einnig ógnir fyrir hefðbundinn landbúnað og skógrækt, og felast þær helst í  aukinni ágengni meindýra og plöntusjúkdóma, hugsanlegum vetrarskemmdum, illviðrum og hækkun á sjávarstöðu.


Skýrslu nefndarinnar í heild sinni má finna á vef umhverfisráðuneytisins með því að smella hér.


Nefndina skipuðu:


Halldór Björnsson, haf- og veðurfræðingur, formaður.
Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, jarðfræðingur, varaformaður.
Anna Kristín Daníelsdóttir, líffræðingur.
Árni Snorrason, vatnafræðingur.
Bjarni D. Sigurðsson, skógfræðingur.
Gísli Viggósson, verkfræðingur.
Jóhann Sigurjónsson, sjávarlíffræðingur.
Snorri Baldursson, líffræðingur.
Sólveig Þorvaldsdóttir, verkfræðingur.
Trausti Jónsson, veðurfræðingur.
Ritari nefndarinnar var Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur. 


back to top