Aðalfundur HS 2006

Fundargerð


Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands
haldinn 30. mars 2006 í Þingborg


Dagskrá:
1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins.
2. Formaður félagsins, Hrafnkell Karlsson flytur skýrslu stjórnar
3. Reikningar, Ólafur Þór Þórarinsson kynnir reikninga
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
5. Reikningar afgreiddir
6. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2006, tillaga frá stjórn
7. Kosning 2 manna í stjórn og 3 til vara
8. Kosning 2 skoðunarmanna og 2 til vara
9. Kosning fulltrúa (aðal- og varamanna) á aðalfund BSSL (5 ) og aðalfund FH (10)
10. Tillögur lagðar fram og kynntar
11. Umræður og afgreiðsla tillagna
12. Mat á unghrossum, Magnús Lárusson
13. Umræður og fyrirspurnir um erindið
14. Önnur mál



1. Fundarsetning
Hrafnkell Karlsson setti fundinn. Stakk upp á Bergi Pálssyni sem fundarstjóra og Höllu Eygló Sveinsdóttur sem fundarritara.


2. Skýrsla stjórnar
Á síðasta aðalfundi var mörkuð stefna með nýjum lögum og með samþykkt um Sæðingastöðina. Aðalinnihald stefnunnar var breytt félagsform, deildarfyrirkomulagið lagt af og tekin upp bein aðild félagsmanna að samtökunum. Stóðhestahald er ekki lengur aðalmarkmið samtakanna og mörkuð var stefna um sæðingarstöðina. Þessi stefnumörkun mótaði að mestu það starf sem unnið hefur verið af stjórn félagsins á starfsárinu. Hið nýja félagsform hefur auðveldað félagsmönnum aðgang að fundum félagsins og sem mest er um vert, gert þá sem voru virkir í dauðum deildum að löglegum félagsmönnum.
Samkvæmt markaðri stefnu hefur stóðhestum fækkað og er aðeins einn eftir.
Númi var seldur fyrir síðasta aðalfund en greiðsla og afhending hafði ekki átt sér stað. Við stóðum í nokkru stappi við að klára það mál, en það endaði farsællega. Eins og þið þekkið fór Númi í þjálfun hér á landi og síðar á heimsleikana þar sem hann vann frækilegan sigur í flokki 7v. og eldri.
Seldur var ( 2/3) hlutur samtakanna í Andvara sl. haust á rúmar 3,1 m. kr . HEÞ seldu nokkru síðar 15 einstaklingum sinn hlut í klárnum. Andvari var notaður eftir að hann kom að norðan í júní, fyrst í Gunnarsholti og á síðara gangmáli í girðingu í Hrunamannahreppi. 20 merum var haldið undir klárinn og héldu 16 af þeim. Vegna frjósemisástands Andvara var það með vilja gert að leiða fáar hryssur undir hann til að tryggara væri að árangur næðist, enda var það ráð sérfræðinga. Gagnrýnisraddir heyrðust vegna sölunnar og þá sérstaklega að klárinn hafi ekki verið auglýstur opinberlega. Ég rakti þessa sögu hér á haustfundi í nóvember, en í stuttu máli kom gott tilboð í hestinn inn á stjórnarfund og með tilliti til skilyrða tilboðsins, ástands og aldurs klársins svo og stefnumörkunar síðasta aðalfundar þótti okkur skynsamlegast að stökkva á tilboðið.
Það var svo nokkru fyrir áramót að Gauti var seldur úr landi, en eins og þið vitið áttu samtökin 20 hluta af 60 í honum. Söluverð var 1,2 m, en áður var tilboð upp á 1,9 m komið í hann sem gekk til baka eftir að hann greindist spattaður. Lítil notkun var á klárnum en 12 merar fóru undir hann á síðasta ári.
Galsi er sá eini sem eftir er, en við eigum 23% í honum (eða 16 hluti) á móti A-Hún. (8hl) Skag. (8hl) og Baldvini Ara og nýjum eigendum sem keypt hafa hluti Andreas Trampe (34) sem átti stærstan hlut áður. Galsi var á síðara gangmáli hjá Kristni og Marjolyn og voru hjá honum 8 merar samkv. fyljunarvottorðum. Ekki er mér kunnugt um notkun hans annarsstaðar. Baldvin Ari mun ekki ætla með hestinn á LM2006 og er enn ófrágengið hvort hann verður fyrra eða seinna gangmál á Suðurlandi en hann mun verða í umsjá Kristins G. og Marjolyn. Ekki eru sérstakar áætlanir um að selja klárinn en ef góð tilboð berast munum við væntanlega selja, enda þjónar engum tilgangi að halda í hann með svo lítilli notkun.
Í stuttu máli má segja að sú stefnumörkun um sæðingastöðina sem við samþykktum á síðasta aðalfundi hefur ekki gengið eftir. Þrátt fyrir mikla þátttöku í sæðingum á sl. ári var árangur slakur, hvort sem litið er til fyljunarhlutfalls eða fjárhagsafkomu. Ég fer ekki út í það að rekja það frekar, þið þekkið þessa sögu, en við munum svara spurningum sem fram koma. Einnig er Páll hér staddur ef menn vilja heyra í honum. Ekki er áhugi annarra hrossaræktarsambanda fyrir því að koma að eignarhaldi eða rekstri Sæðingarstöðvarinnar. Hins vegar hefur komið fram áhugi og hvatning frá sumum forystumönnum sambandanna um að stöðin eða sæðingarstarf í landinu verði rekið áfram.
Mikilvægt er að einhenda sér í rannsóknarstarf á sviði frjósemi og mun stjórnin leggja fram tillögu um stuðning HS í slíkt verkefni ef áhugi er fyrir því að nýta aðstöðuna í Gunnarsholti í þeim tilgangi. Á prjónunum eru áætlanir um rannsóknarstarf á sviði frjósemi sem reiknað er með að hefja á árinu.
Ræktun 2005, sem er umfangsmesta sýning okkar, var haldin í lok apríl og heppnaðist vel. Fjölmörg hross komu fram og á hana mættu milli 600 og 700 manns.
Ræktun 2006 verður haldin 29. apríl og munum við leggja áherslu á að hafa hana sem glæsilegasta. Ungfolasýningin var í byrjun maí og var fremur illa sótt eða um 150 manns. Tímasetning var ekki raunhæf, mikið búið að vera í gangi og menn komnir með hugann við sýningar sumarsins. Ákveðið var að flýta sýningunni í ár enda var betri þátttaka nú en hún var haldin síðasta laugardag. Fram komu 24, 2 og 3 vetra folar, sem sýndu margir hverjir glæsilega takta en líklega sóttu sýninguna nokkuð á þriðja hundrað manns en hún er óuppgerð vegna heilsuleysis gjaldkera og sýningarstjóra. Folaldasýningin var haldin þann 29. október og voru þar sýnd 29 folöld. Aðsókn var þokkaleg, eða um 240 manns. Við héldum uppteknum hætti með tilnefningu heiðurshryssu og afreksknapa og hlutu heiðurinn að þessu sinni Hlökk frá Laugarvatni og afreksknapinn Sigurður Sigurðarsson. Umsjónarmaður og skipuleggjandi sýninganna fyrir okkar hönd er sem fyrr Óðinn Örn Jóhannesson, en mikil vinna liggur einnig í þessu frá ýmsu góðu fólki sem þiggur lítið fyrir. Ég þakka öllum er að þessu komu fyrir gott starf svo og stjórnarmönnum sem sumir hverjir hafa lagt mikið af mörkum. Gaman væri að heyra álit eða ábendingar fundarmanna á fyrirkomulagi og efni sýninganna því nauðsynlegt er að byggja þær þannig upp að þær skili ræktunarmarkmiðum okkar, skapi stemmingu og verði ekki of þungar og langdregnar.


Fimm stjórnarfundir auk félagsfundar hafa verið haldnir frá síðasta aðalfundi auk margra funda sem einstakir stjórnarmenn hafa setið um sæðingastöðina og skipulag og undirbúning sýninga. Mætt var með fullskipað lið á aðalfund FH sem haldinn var í nóvember sl. Þar var m.a. blessað yfir lög okkar sem við breyttum á síðasta aðalfundi Aðalfundur BSSL var haldinn var í apríl sl. og sóttum við hann einnig. Við stóðum fyrir fundi í nóv. þar sem fulltrúar allra hrossaræktarsambanda voru boðaðir til að ræða hugsanlega aðkomu þeirra að Sæðingastöðinni, en eins og fyrr sagði er enginn áhugi fyrir þátttöku þeirra. Í framhaldi af þessum fundi hittumst 3 formenn sambanda, Ingimar á Skörðugili, Baldvin í Torfunesi og ég. Við ræddum við Sigurgeir Þorgeirsson framkvæmdastjóra BÍ m.a. um möguleika okkar á ríkisstuðningi úr búnaðarsamningi til sæðingarstöðvarinnar, en nokkrar búgreinar fá stuðning í sína sæðingastarfsemi í gegnum samninginn. Sigurgeir sagði að hrossasæðingar hefðu ekki gildi í ræktunarstarfi og vitnaði þar til skýrslu um það efni og að forystumenn greinarinnar hefðu ekki þrýst á. Við hittum einnig Guðlaug Antonsson og Kristinn Guðnason og fórum m.a. yfir möguleika á stuðningi Stofnverndarsjóðs við frjósemisrannsókn sem sótt var um til sjóðsins á síðasta hausti.
Útgáfustarfsemi á okkar vegum er ekki mikil, en við sendum út eitt fréttabréf í haust, að öðru leyti kynnum við það helsta á heimasíðu okkar s.s. allar fundargerðir. Þegar litið er yfir verkefni samtakanna í dag þá er það ekki svipur hjá sjón miðað við það sem var. Erfitt hefur verið að sporna við þessari þróun, lítil notkun stóðhestanna kippti grundvellinum undan rekstri þeirra og sæðingarstarfið hefur verið mun kostnaðarsamara en við treystum okkur til að verðleggja það á. Hvaða hlutverki eiga Hrossaræktarsamtök Suðurlands að þjóna í nánustu framtíð? Við settum okkur markmið eða stefnu á síðasta aðalfundi eins og ég rakti í upphafi máls míns. Er varðar Sæðingastöðina hafa þau ekki gengið eftir. Við leggjum fram tillögu hér á fundinum um nýtingu aðstöðunnar í Gunnarsholti, en hún breytir ekki þeim veruleika að starfið verður ekki það sem var. Það má ekki gleymast að samtökin eru nauðsynleg grasrótarsamtök, grunneining FH sem gegnir því hlutverki í félagskerfinu að tengja saman hinn almenna félagsmann við þá sem leiða hópinn og berjast fyrir réttindum okkar og hagsmunum. Án samtaka og félagsmáttar verður engum hagsmunamálum landað. Félagskerfi okkar er einn þátturinn í lýðræðisuppbyggingu þjóðarinnar þar sem fulltrúar okkar, kosnir á félagslegum grunni, berjast fyrir hagsmunamálunum. Sagan kennir okkur að eftir því sem samstaðan og einingin er meiri þeim mun betri árangri náum við. Ég vil skilja við þessa umræðu með því að fullyrða að HS hafa mikið hlutverk, spurningin er bara sú hvort við eigum að auka það hlutverk.
Að lokum þakka ég öllum samstarfið og sérstaklega stjórnarmönnum og varamönnum svo og ritara og aðstoðarmanni Höllu Eygló.


3. Ársreikningur
Ólafur Þór Þórarinsson fór yfir reikninga samtakanna í forföllum Helga Eggertssonar sem lá heima í flensu.
Niðurstaða reikninga:
Gjöld: 4.966.701 kr
Tekjur: 10.196.634 kr
Hagnaður: 5.229.933 kr


Eignir: 23.513.267 kr
Skuldir: 12.609.096 kr


4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Engar umræður.


5. Reikningar afgreiddir
Samþykktir samhljóða


6. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2006, tillaga frá stjórn
Lagt til að árgjaldið verði óbreytt eða 4.000 kr. Tillagan samþykkt.


7. Kosning 2 manna í stjórn og 3 til vara
Úr stjórn eiga að ganga Helgi og Ólafur, þeir gefa báðir kost á sér áfram. Stjórnin leggur til að þeir sitji áfram. Samþykkt


8. Kosning 2 skoðunarmanna og 2 til vara
Tillaga frá stjórn um að skoðunarmenn verði Guðmundur Gíslason og Sveinn Sigurmundsson og til vara Pétur Ottósson og Sigurbjartur Pálsson. Samþykkt.


9. Kosning fulltrúa og varamanna á aðalfund BSSL (5 ) og aðalfund FH (10).
Tillaga frá stjórn um að á aðalfund BSSL mæti Bergur Pálsson, Helgi Eggertsson, Hrafnkell Karlsson, María Þórarinsdóttir og Gísli Kjartansson. Til vara Bertha Kvaran, Þuríður Einarsdóttir, Ásmundur Lárusson og Jón Jónsson. Ekki komu fram fleiri tillögu og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.
Tillaga frá stjórn um fulltrúa á aðalfund FH, þar mæti aðal- og varastjórn HS auk Jóns Vilmundarsonar og Freyju Hilmarsdóttur. Til vara Kári Arnórsson, Sveinn Steinarsson, Bjarni Þorkelsson, Baldur I. Sveinsson og Jóhannes Kristjánsson. Ekki komu fram fleiri tillögu og tillagan því borin undir atkvæða . Samþykkt.


10. Tillögur lagðar fram og kynntar
Hrafnkell las tillögu frá stjórn:

Tillaga um nýtingu á aðstöðu HS í Gunnarsholti
Vegna þeirrar stöðu er upp er komin í málefnum Sæðingastöðvarinnar í Gunnarsholti, leggur stjórnin til við aðalfund Hrossaræktarsamtaka Suðurlands að aðstaðan, sæðingarhúsið og stóðhestastöðvarhúsið, verði boðin til endurgjaldslausra afnota til rannsókna- og þróunarstarfs í greininni. Jafnframt verði þeim möguleika haldið opnum að aðstaðan geti nýst til sæðingarstarfs ef á þarf að halda.


Greinargerð:
Á þessari stundu er ekki full ljóst hvað verður um frekara sæðingastarf í Gunnarsholti, en hins vegar eru líkur á að rannsóknarverkefni á sviði frjósemi hefjist á árinu, sem getur verið vænlegt að framkvæma í Gunnarsholti. Ef Fagráð í hrossarækt hefur áhuga á að nýta sér aðstöðu samtakanna og/eða annan tilstyrk þá hafa samtökin góða burði og aðstöðu til að styðja við rannsóknar- og þróunarstarf í greininni. Þessi ráðstöfun samrímist vel lögum samtakanna svo og ákvæðum leigusamnings um stóðhestastöðvarhúsið við landbúnaðarráðuneytið frá 31. okt. 2000.


11. Umræður og afgreiðsla tillagna
Hrafnkell taldi að ekki væri skynsamlegt að selja aðstöðuna strax. Það væri mjög mikilvægt fyrir greinina að efla þekkingu á frjósemi og sæðingum. Nú hefðu samtökin burði til að standa við bakið á slíku verkefni og því væri lag. Hversu lengi samtökin væru tilbúin að bjóða aðstöðuna yrði að ráðast af lengd verkefnisins og hvernig samningar yrðu gerðir við Fagráð í hrossarækt.

Páll Stefánsson sagði að hugmyndin um rannsóknarverkefni væri á algjöru frumstigi. Erlendir vísindamenn hefðu sýnt því áhuga að taka þátt í þessu verkefni. Þegar farið væri út í slíkt rannsóknarverkefni þyrfti að vera ljóst hvaða spurningum rannsókninni væri ætlað að svara. Í dag er hugmyndin sú að svara eftirtöldum spurningum: Eru íslenskir stóðhestar eðlilega frjósamir miðað við önnur hestakyn? Hvernig er almennu heilbrigði þeirra, kynheilbrigði, kyngetu, kynorka og sæðisframleiðslu háttað? Hvaða kröfur þarf stóðhestur að uppfylla til að vera tekinn inn í ættbók?
Rannsakaðir yrðu tveir hópar stóðhesta á svipuðum aldri og stæði verkefnið í tvö ár.
Hópur 1 samanstæði af stóðhestum sem sýnt hafa fulla frjósemi undanfarin 2 ár (<76% fyljaðar hryssur 1. gangmál miðað við 25 hryssur og 20 hryssur seinna gangmál).
Hópur 2 samanstæði af stóðhestum sem sýnt hefðu ófullnægjandi frjósemi undanfarin tvö ár. (>76% fyljun miðað við 25 hryssur 1. gangmál og 20 hryssur seinna gangmál).
Skoða þyrfti forsögu hestsins s.s. notkun og áföll sem hugsanlega hefðu haft áhrif á frjósemi hans. Rannsókn færi fram á innri og ytri kynfærum, kynatferli, sæði og ýmsar sértækar rannsóknir s.s. hormónamælingar. Einnig yrði reynt að frysta sæði úr öllum hestunum. Til að hægt sé að setja upp slíka rannsókn þurfa að fást hestar í hana og fjármagn. Grunnvinnuna væri best að hefja í sumar s.s. að finna hesta.

Viðari Steinarssyni leist vel á tillöguna en vildi sjá þetta stærra í sniðum. Hann lagði til að stjórnin ynni að því að sett yrði á laggirnar rannsóknar- og vísindasetur íslenska hestsins í Gunnarsholti. Það væri alveg óþarfi að láta allt slíkt starf fara fram fyrir norðan.

Hrafnkell sagði þetta tilboð ekki tímasett og væri það með ráðum gert til að sjá hvort fagráð hefði áhuga á að nýta aðstöðuna. Hversu lengi stöðin yrði lánuð í þetta verkefni yrði að ákveða í samráði við fagráð. Það væri hins vera alveg ljóst að samtökin gætu ekki bundið hendur sínar lengi. Hrafnkell óskaði eftir því við Viðar að heyra nánar um þessa hugmynd um rannsókna- og vísindasetur því að það væri hugsanlega eitthvað sem ætti að skoða.

Viðar Steinarsson sagðist vera samþykkur tillögunni og það væri mjög brýnt að auka grunnþekkingu á ýmsu varðandi íslenska hestinn.

Kristinn Guðnason tjáði fundarmönnum að fagráð liti svo á að frjósemisrannsóknir ættu að hafa forgang. Fagráð hefði um 8 milljónir til ráðstöfunar úr Stofnverndarsjóði.

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt.



12. Mat á unghrossum, Magnús Lárusson
Magnús fór yfir hvernig hægt væri að auka arðsemi í hrossarækt með því að grisja til í stóðinu. Ræktun reiðhesta væri kostnaðarsöm og tímafrek og því væri mikilvægt að grisja hópinn áður en komið væri að tamningu. Skapgerð skipti miklu máli og með ákveðnu vinnulagi væri hægt að breyta viðhorfi unghrossa á manninum til frambúðar, skapa virðingu og traust. Sjálfsagt væri að kenna unghrossum undirstöðuatriði fyrir reið s.s. að teymast, bera beisli og hnakk, fara á bak. Þetta væri auðvelt og með þessu kynntust ræktendur skapgerð sinna hrossa strax frá byrjun og væru í betri aðstöðu til að meta hvort þeim líkaði skapgerðin eða ekki.
Sköpulagsþættir hafa mismikla þýðingu. Mest vægi hafa sennilega háls og samræmi. Varðandi hreyfingar væri horft á skrefstærð, fótaburð, léttleika, liðugleika (mýkt), fjölhæfni (brokk kjörgangur)? Sérstakt eyðublað væri notað til að hjálpa til við að meta hrossin, þar sem hægt væri að finna meðaltal hrossins og einnig meðaltal hrossahópsins.
Magnús kynnti skapgerðarkortið sem hann og Svanhildur Hall hafa þróað og kynnt á undanförnum árum. Hrossin sem væru næst miðju væru fljótust að læra. Með tamningu væri oft hægt að færa þau svolítið inn að miðju ef byrjað væri nógu snemma að hafa áhrif á þau. Það sem hefur áhrif á skapgerð eru erfðir, umhverfi og móðuráhrif. Magnús sagði að best væri að taka unghross árlega frá folaldshausti í nokkur skipti í senn til þess að auka virðingu og traust. Eftir þá vinnu væri síðan ákveðið hvaða hrossum ætti að farga, selja eða gefa meiri tíma. Með skipulögðum vinnuaðferðum væri hægt að sjá hvaða eiginleikar væru í lagi og hvaða eiginleika hrossinu vantaði og taka ákvarðanir úr frá því. Hross þurfa að alast upp í stóði til að læra hegðun hests. Fjölbreytileiki í landi sem hrossin alast upp í er mjög mikilvægur til að þau kynnist sem flestu og reyni nægilega mikið á sig, verði þolin og fótviss.
Að lokum má hugsa sér að vera með vinnufyrirkomulag eitthvað í þessum dúr.
Á 1. ári kennt að hlýða taum og teymast
Á 2. rifjað upp frá fyrra ári og kennt að bera beisli og hnakk og fara í hringi í stíu.
Á 3. ári rifjað upp frá fyrra ári og hrossinu kennt að standa kyrru þegar farið er á bak og af baki, riðið í hringi í stíu og litlu afmörkuð svæði. Kennt að hlaupa í hringi í gerði með öðrum unghrossum svo unnt sé að meta hreyfingar. Erfitt að meta eðlilegar hreyfingar þegar hross eru hrædd þegar þau eru rekin til.



13. Umræður og fyrirspurnir um erindið
Nokkrar umræður urðu um erindið. Snæbjörn Björnsson taldi að það skipti máli hvar hnéð væri staðsett og var Magnús sammála því. Snæbjörn spurði hvað Magnús ætti við með að hann vildi rækta stór hross.
Magnús svaraði því til að stærri hross væru auðseldari. Það væri hins vegar ekki markmið hjá sér að eiga stærstu hrossin. Hross um og yfir meðaltal finndist honum æskilegust, enda væri hann sjálfur vel vænn. Oft hefur verið talað um að stór hross væru stirðari heldur en lítil. Magnús sagðist draga það í efa, hross væru einfaldlega misstirð og það hefði trúlega ekkert með stærð að gera.
Páll Imsland spurði hvort ekki þyrfti að kanna hvort stirðleiki og stærð færi saman. Magnús sagði að mörg hross töpuðu liðugleika sem sennilega væri vegna þess að þeim væri riðið við of hart taumhald. Hann taldi ekki vera samhengi milli liðugleika og stærðar. Hann hefði komið á baka mörgum erlendum ganghestakynjum og þrátt fyrir mikla stærð væru sum þeirra ótrúlega mjúk og lipur.
Snæbjörn Björnsson sagði að í markmiðum ræktenda sem ræktuðu arabíska hestinn mætti stærð ekki fara yfir ákveðin mörk því þá töpuðu þeir þoli.
Magnús taldi að það gæti alveg staðist miðað við þær aðstæður sem þeir byggju við.
Kristinn Guðnason spurði út í móðuráhrif, hvort geðvond fósturmóðir gæti haft slæm áhrif á folald.
Magnús taldi að svo gæti verið.


14. Önnur mál
Viðar Steinarsson lýsti yfir áhyggjum af því hve fáir fundarmenn hefðu mætt, nú þegar öllum félagsmönnum væri heimilt að mæta. Tilgangur félagsins væri ef til vill ekki eins augljós og áður. Hann sagðist hafa beðið eftir nýjum og ferskum hugmyndum frá stjórn. Hvaða tillögur ætlar stjórn að leggja til við Félag hrossabænda? Það væri dapurleg niðurstaða að leggja niður sæðingastöðina þó að á móti blési sl. vor. Þar hefðu ytri aðstæður örugglega haft áhrif á frjósemi. Hugsanlega væri rétt að breyta starfseminni og taka sæði úr stóðhestum á stöðinni og keyra því út. Rétt eins og gert væri með hrútasæði. Aðstæður í Gunnarsholti væru ekki góðar fyrir mikinn fjölda hryssna. Félagsmenn hefðu síðan forgang að sæðingum ef eftirspurn væri meiri en framboð. Að lokum bað Viðar, Kristinn Guðnason að segja aðeins frá nýja átaksverkefnu.
Hrafnkell tók til máls, þakkaði Viðari fyrir hans innlegg. Honum hefði fundist fundurinn daufur í upphafi. Alltaf væri gagnlegt að ræða félagsstarfið. Vissulega væri áhyggjuefni hve fáir mættu á fundinn. Sérstaka undrun vekti hve fáir mættu sem væru starfandi í greininni. Staðan nú væri svipuð og á fundinum fyrr í vetur með Guðlaugi Antonssyni og Kristni Guðnasyni. Víða væri deyfð yfir félagsstarfi og kæmi sjálfsagt margt til. Sagðist ekki hafa haft von um að það yrði húsfylli í kvöld en núna gætu allir mætt. Hann hefði vænst þess að áhugavert erindi drægi að. Varðandi stefnu stjórnar á aðalfundi BSSL og FH væru fjölmörg mál sem þyrfti að vera vakandi yfir. Á aðalfundi BSSL þarf að kynna hvað er á döfinni í greininni. Á aðalfundi FH væri mest rætt um bein hagsmunamál stéttarinnar hverju sinni. Búið væri að fara mjög vel yfir málefni sæðingastöðvarinnar. Margir forystumenn hrossaræktarsamtaka hlynntir henni en sæju ekki hvernig þeir gætu lagt því máli lið. Páll Stefánsson hefði tjáð stjórninni það fyrr í vetur að lágmarksgjald á hryssu þyrfti að vera 50 þúsund miðað við að sæða 100 hryssur. Það væri erfiðara að fá hesta á stöðina á landsmótsári. Málefni sæðingastöðvarinnar væru búin að kosta mikla vinnu og því miður væri þetta niðurstaðan. Það að breyta rekstrarfyrirkomulaginu og senda út sæði er hugmynd sem vert er að kanna en hafa verður í huga að hrossasæðingar eru mun flóknari en sauðfjársæðingar. Hlutverk HS sem félagasamtök er að flytja mál ræktenda. Löndum engu máli öðruvísi en að standa saman. Gagnlegt væri að fá meiri umræður um það sem félagsmönnum finndist rétt að samtökin ynnu að.
Snæbjörn Björnsson taldi að það gæti tæpast verið mikill áhugi á málefnum samtakanna þegar stjórnarmenn væru fyrstir til að yfirgefa fundinn. Einnig gagnrýndi hann tillögur stjórnar um hverjir færu á aðalfund BSSL og FH, margt af því fólki hefði ekki mætt á fundinn. Það er löngu tímabært að kanna frjósemi stofnsins. Hann var ekki sammála Viðari um að sæðingastarfsemi þyrfti að halda áfram, taldi það ekki mikinn skaða þó henni væri hætt. Ef til vill væri orsök ófrjósemi að einhverju leyti því að kenna að dýralæknar væru að hjálpa til við að koma fyli í ófrjósamar hryssur.
Kristinn Guðnason sagði lítillega frá nýju þróunarverkefni. Fjármunir þessa árs yrðu m.a. nýttir í að ljúka knapamerkjakerfinu, endurbæta Worldfeng, spattverkefni, fóðurmatskerfi og bækling um Félag hrossabænda.
Haraldur Sveinsson sagðist vilja vita hvort sæðingastöðin yrði ekki starfrækt í vor. Það þýddi ekki að fara í kringum það mál eins og heitan graut. Það væri annars merkilegt hvers vegna stóðhestahald hefði ekki gengið hjá HS meðan það gengi ljómandi vel hjá Vestlendingum og Norðlendingum.
Hrafnkell beindi orðum sínum til Snæbjörns og sagði að Magnús Trausti Svavarsson hefði boðað forföll og Helgi Eggertsson lægi heima í flensu. Af þeim fulltrúum sem kosnir hefðu verið til að mæta á aðalfund BSSL væru 3 af 5 aðalmönnum mættir og af þeim sem hefðu verið kosnir sem aðalmenn á aðalfund FH væru sjö mættir. Hann sagði það skyldu stjórnar að koma með tillögur um fulltrúa á aðalfundi en hins vegar væri sjálfsagt að menn kæmu með aðrar uppástungur. Hann áminnti Snæbjörn um að hann hefði átt að koma með hugmyndir að öðrum fulltrúum.
Varðandi breytingar á félagsformi samtakanna hefði sú breyting verið óumflýjanleg. Alltof margar deildir voru óvirkar og höfðu ekki haldið aðalfundi í mörg ár. Félagsformið væri klárlega ekki örsökin fyrir lélegri mætinu á fundinn. Sæðingastöðin verður ekki starfrækt í vor. Ástæður þess að HS gafst upp á stóðhestahaldi á meðan önnur samtök halda velli s.s. fyrir vestan og norðan? Sjálfsagt ekki nein ein skýring á því þó er klárt mál að markaðsaðstæður eru allt aðrar hér. Á Suðurlandi er gríðarlegt framboð á góðum stóðhestum. Ef félagsmenn vilja gamla kerfið aftur verður að skoða það, þó það sé ekki raunhæft í dag. Mikið hefur verið pantað undir Galsa fyrir norðan en hér var hann hins vegar aðeins í 8 hryssum sl. sumar.
Kristinn Guðnason sagði að það hefði verið haldið eins lengi í stóðhestana og hægt hefði verið. Hins vegar mætti ef til vill prófa að fá leigða stóðhesta ef félagsmenn hefðu áhuga á því. Sæðingastöðin yrði ekki rekin í ár en það væri ekkert sem segði að hún væri dauð um aldur og ævi. Ef til vill myndi hún öðlast nýtt hlutverk. Brýnt væri að auka rannsóknir. Greinin væri ekki eins blönk og hún hefði verið og því væri möguleikar á því að leggja fjármuni í áhugaverð verkefni.
Viðar Steinarsson bað Pál um að fara yfir það hvers vegna þeir treystu sér ekki til að halda rekstrinum áfram.
Páll Stefánsson sagði að það væri einfaldlega ekki rekstrargrundvöllur fyrir áframhaldandi starfsemi. Það hefði verið reynt að fá fleiri hrossaræktarsamtök inn í þetta. Þeir fundir hefðu einfaldlega farið þannig að mönnum hefði þótt þetta mjög gott hjá okkur en vildu samt ekki vera með. Búið væri að ræða við marga ræktendur um hvort þeir vildu koma stóðhesti á stöðina en einungis einn aðili hefði haft áhuga.
Sennilega tóm vitleysa að safna svona mörgum hryssum saman á einn stað. Það væri hins vegar heldur enginn áhugi fyrir því að sæði væri keyrt út. Útkoman eftir síðasta ár hefði verið þannig að hægt var að greiða rekstrarkostnað en engin laun fyrir 580 vinnustundir sem Dýralæknaþjónustan lagði til. Það er hins vegar alveg hægt að sæða hryssur ef menn vilja en það þarf 4-4,5 milljónir til að reka stöðina. Ef einhver er tilbúin að borga þá upphæð er það alveg hægt. Páll lagði ríka áherslu á það að hann væri með þessum orðum alls ekki að segja sæðingar verði ekki til um aldur og ævi.
Viðar Steinarsson þakkaði skýringar Páls en fannst þetta samt ekki alveg vera á borðinu. Það væri sorglegt að geta ekki haldið þessu starfi áfram þar sem þekkingin er fyrir hendi. Hann sagðist ekki hafa orðið var við að könnun hafi verið gerð meðal stóðhestaeigenda hver vildi koma hestum á stöðina. Það þarf að vera ljóst að hausti hvaða hestar eru á stöðinni. Ég held að það sé rétt að menn bretti upp ermar og vinni í að stöðin verði starfrækt vorið 2007


Bergur Pálsson þakkaði fyrir góðan fund og sagði fundi slitið kl 23:15.

/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top