Aðalfundur FKS 29. jan. 2007

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi
haldinn í Árhúsum Hellu mánudaginn 29. janúar kl. 12.00.


Formaður Sigurður Loftsson bauð fundarmenn velkomna og setti fund. Gerði grein fyrir breytingu á auglýstri dagskrá, lagði fram tillögu að fundarstjóra, Birna Þorsteinsdóttir og ritara Katrín Birna Viðarsdóttur, samþykkt án athugasemda.


Birna Þorsteinsdóttir á Reykjum þakkaði það traust sem henni væri sýnt og kynnti dagskrá.

1. Skýrsla stjórnar, Sigurður Loftsson, Steinsholti, formaður FKS.
 “Það fer að verða hefðbundið upphafsorð ársskýrslu, að liðið starfsár hafi verið talsvert tíðindasamt. Trúlega hafa þau þó sjaldan verið sannari en nú.

Fyrsti fundur félagsráðs var haldinn 21. febrúar. Þar var auk stjórnarkjörs, kosnir fulltrúar á aðalfund BSSL í samræmi við samþykkt aðalfundar. Þá var einig rædd þjónusta Búnaðarsambandsins við nautgriparæktina og kostun hennar, en það hefur verið sívirkt umræðuefni á þessum vettvangi. Ljóst er að með þeim breytingum sem orðið hafa á inngreiðslum einstakra búgreina til búnaðarsambandanna af búnaðargjaldi, er hlutur nautgriparæktarinnar orðinn nálægt 70% af heildinni hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, en jafnframt fer hlutur búnaðargjaldsins í heildartekjum þess sífellt minnkandi. Þessi þróun knýr enn frekar en áður á þá kröfu, að skilgreint verði hvað af þessari starfsemi teljist grunnþjónusta og um leið hvernig hún skuli kostuð.
 
Annar fundur félagsráðs var haldinn 27. mars Á þann fund mætti Erna Bjarnadóttir forstöðumaður félagssviðs BÍ og fjallaði um stöðu WTO viðræðna og störf nefndar um lækkun matvælaverðs. Unnið hefur verið að undirbúningi tillagna á vettvangi WTO frá ráðherrafundinum í Hong Kong haustið 2005. Búist var við að línur myndu skýrast í landbúnaðarhluta viðræðanna fyrir 30. apríl sl. Það náðist hinsvegar ekki og lítið eða ekkert hefur miðað síðan.
Hvað varðar matvælaverðsnefndina þá náði hún ekki að skila sameiginlegri niðurstöðu eins og kunnugt er. Fyrrihluta sumars skilaði hinsvegar formaður nefndarinnar Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri skýrslu um störf hennar. Í kjölfarið varð mikil umræða í samfélaginu um verðmyndun matvæla og samhengi hennar við þá tollvernd sem innlendir búvöruframleiðendur njóta. Í haust lagði síðan ríkisstjórnin fram tillögur til lækkunar matarverðs og var þar meðal annars byggt á þeim tillögum sem skýrslan innihélt. Verður betur komið að því síðar.   
   
Aðalfundur LK var haldinn á Parkinn Hótel Ísland daganna 6. – 7. apríl og sendi félagið þangað 8 fulltrúa. Eitt stærsta mál fundarins var samþykkt all yfirgripsmikillar ályktunar, þar sem stjórn LK var falið að skoða hagkvæmni og markaðsáhrif af innflutningi á erfðaefni úr nýju kúakyni. Í kjölfar þess var síðan settur á fót stýrihópur til að vinna að verkefninu, í honum sitja Þórólfur Sveinsson frá LK, Pálmi Vilhjálmsson frá SAM og Ágúst Sigurðsson frá LBHÍ. Unnið hefur verið út frá verkefnaáætlun í 4 liðum, en þeir eru:

1. Bein áhrif á framleiðslukostnað mjólkur.
2. Kostnaður vegna stofnverndar íslensku kýrinnar.
3. Áhrif innflutnings á tekjur af mjólkurframleiðslu.
4. Efnainnihald mjólkur og lýðheilsusjónarmið.

Stefnt er að ljúka þessu verkefni fyrir næsta aðalfundi LK og kynna niðurstöður  þess þar.
Laugardaginn 8. apríl var síðan haldið upp á 20 ára afmæli Landssambandsins m.a. með ýmsum uppákomum í Smáralindinni og árshátíð kúabænda um kvöldið á Broadway.


Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands var haldinn á Flúðum 21. apríl. Fátt bar þar til tíðinda sem okkur áhrærir, annað en samþykkt var talsvert snörp ályktun um raunverulega og sanngjarna skoðun á staðsetningu nýrrar nautastöðvar BÍ. Lítið virðist þó vera af þessu máli að frétta, en af fundargerðum stjórnar BÍ verður ekki betur séð en málið sé í föstum og mótuðum farvegi. Ekki standi til að skoða aðra kosti á staðsetningu frekar og stöðin verði byggð upp í nágrenni Hvanneyrar. Ekkert bendir heldur til annars en um þetta ríki nú full sátt innan stjórnarinnar, þó lítið beri enn á framkvæmdum.


Félagið stóð ásamt Búnaðarsambandinu að kúasýningunni Kýr 2006 í Ölfusshöllinni 26. ágúst. Illa horfði með þátttöku í sýningunni framan af en úr rættist þegar nær dró og var þetta ágæt sýning. Alls voru um 50 gripir skráðir til sýningar auk þess sem MS og vélasalar kynntu vöru sína. Stefnt er að næstu sýningu að tveimur árum liðnum og hefur þegar verið skipuð til þess nefnd frá hendi félagsins. Í þessu sambandi má nefna að Búnaðarsamband Suðurlands verður 100 ára á árinu 2008 og hefur þeirri hugmynd verið hreift m.a. að halda landbúnaðarsýningu á Selfossi af því tilefni. Komi til þess verður kúasýninginn væntanlega hluti hennar.


Árlegur samráðsfundur félagsráðs og nautgriparáðunauta BSSL var haldinn á Stóra- Ármóti 2. október. Þessir fundir hafa fyrir löngu skipað fastan sess í starfi félagsráðs og er án vafa mikilvægir fyrir báða aðila. Formaður sat síðan árlegan formannafund Búnaðarsambandsins 8. desember af stakri skyldurækni.


Félagið stóð að venju fyrir opnum fundum ásamt LK nú á haustdögum. Fundirnir voru að þessu sinni 3 í Þingborg 19. okt., Fossbúð 24. okt., og Kirkjubæjarklaustri 25. okt. Þar var að venju farið yfir það sem hæst bar í hagsmunamálum greinarinnar.
 
Mjólkurframleiðslan síðasta verðlagsár var um 113 milljónir lítra og er það aukning um 1,6%.  Greiðslumarkið var 111 milljónir lítra, en í samræmi við gefin fyrirheit greiddu afurðastöðvarnar fullt verð fyrir alla innvegna mjólk verðlagsársins. Framleiðslan hefur það sem af er þessu verðlagsári gengið mjög vel og var um áramót komin í 115 milljónir lítra á ársgrunni. Greiðslumarkið fyrir yfirstandandi ár er 116 milljónir og hefur því til viðbótar verið gefin út fyrirheit um fullt afurðastöðvarverð fyrir 3 milljónir lítra umfram greiðslumark.
Á prótein grunni seldust tæpar 113 milljónir lítra mjólkur síðasta verðlagsár en tæpar 103 milljónir á fitugrunni. Þetta er aukning á báðum liðum, en þó einkum í fitunni og hefur sú þróun haldið áfram. Talsvert var unnið í markaðssetningu íslenskra mjólkurvara í Bandaríkjunum á síðasta ári og þótti það starf skila nokkuð góðum árangri. Framleiðsla og sala mjólkur virðist því í nokkuð góði horfi nú, hvað sem öðrum þáttum líður.


Innlagt nautakjöt síðasta verðlagsár var um 3200 tonn sem er minnkun um 11%. Munar þar mest um samdrátt í framboði kýrkjöts eða 14%. Eftirspurn hefur verið viðvarandi og talsvert umfram framboð, enda jókst innflutningur nautakjöts umtalsvert á árinu og var komin í um 500 tonn í árslok. Flest bendir til að vænta megi aukins framboðs á þessum markaði frá innlendum framleiðendum næstu misseri, enda hefur afkoma af þessari framleiðslu farið batnandi með hækkandi afurðaverði til bænda. Þar kunna þó að vera blikur á lofti. Lækkun tolla um 40% á innfluttu nautakjöti og aukning tollkvóta um 100 tonn, eins og gert er ráð fyrir í nýgerðum samningi Íslands við Evrópusambandið, hlýtur að þrengja um vaxtarmöguleika þessarar greinar. Auk þess sem aukið verðaðhald á markaði sem þessu fylgir hlýtur fyrr eða síðar að pressa á framleiðendaverðið. Miklu mun því skipta að samstaða verði með sláturleyfishöfum og bændum að viðhalda sanngjarnri hlutdeild framleiðenda í markaðsverðinu.


Í byrjun október birti ríkisstjórn Íslands tillögur sínar til lækkunar matarverðs  sem ætlað var að geti leitt til tæplega 16% lækkunar matvælaverðs og 2,3% lækkunar neysluverðsvísitölu á þessu ári. Í megin atriðum gengu tillögurnar út á eftirfarandi atriði
Vörugjöld af innlendum og innfluttum matvælum, öðrum en sykri og sætindum, verði felld niður að fullu 1. mars 2007.
Virðisaukaskattur af matvælum verði lækkaður úr 14% í 7% frá 1. mars 2007 og virðisaukaskattur af öðrum matvælum sem hefur verið 24,5% lækkaður í 7% frá sama tíma.
Almennir tollar á innfluttum kjötvörum úr 2. kafla tollskrár verði lækkaðir um allt að 40% frá 1. mars 2007. Samhliða því verði áfram unnið að frekari gagnkvæmum tollalækkunum og bættum markaðsaðgangi gagnvart helstu viðskiptalöndum Íslands í milliríkjasamningum sem tryggja jafnframt útflutningshagsmuni íslensks atvinnulífs.
Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði ákváðu samhliða þessu raunlækkun á heildsöluverði mjólkurvara á næstu 12 mánuðum sem verði náð með óbreyttu verði á þessum tíma, hinu sama og ákveðið var af verðlagsnefnd búvöru þann 1. janúar 2006. Sem þýðir í raun tveggja ára verðstöðvun á mjólkurvörum.


Skömmu áður en ríkisstjórnin birti tillögur sínar fékk stjórn Landssambands kúabænda til athugunar þá hugmynd að kúabændur tækju á sig kostnað í tengslum við þessar aðgerðir. Þrátt fyrir knappan tíma sá stjórnin sér ekki annað fært en að kynna málið fyrir trúnaðarmannahóp Landssambandsins. Haldnir voru 3 fundir víðsvegar um land dagana 5. – 6. okt. og var m.a. einn þeirra á Hvolsvelli fyrir fulltrúa frá Hvalfirði að Höfn auk þess sem allt félagsráð FKS var boðað.  Að loknum þessum fundum var niðurstaða stjórnar LK eftirfarandi yfirlýsing:
,,Landssamband kúabænda er tilbúið að taka þátt í samræmdum aðgerðum til lækkunar á matvælaverði, en í þeim aðgerðum felst m.a. lækkun virðisaukaskatts á íslenskar búvörur. Í þessu skyni mun Landssamband kúabænda fallast á nokkra raunlækkun á lágmarksverði fyrir mjólk til framleiðenda á árinu 2007, eftir því sem um kann að semjast, sjá lið 2 hér eftir.
Forsendur þessa eru:


  1. Að stjórnvöld raski ekki, með neikvæðum hætti,  starfs- og samkeppnisumhverfi íslenskrar mjólkurframleiðslu og mjólkurvinnslu með opinberum ákvörðunum umfram það sem milliríkja- og alþjóðlegir samningar leiða af sér fram til 31. ágúst 2012. Enda er það forsenda áframhaldandi hagræðingar í framleiðslu mjólkur og vinnslu mjólkurvara.
  2. Að stjórnvöld gangi til samninga við Landssamband kúabænda um hvernig verði hraðast unnið að lækkun á framleiðslukostnaði mjólkur.’’


Á þessum tíma lá fyrir að hækkunarþörf samkvæmt verðlagsgrundvelli kúabús var komin í 9,2% eða sem nemur 4,18 kr/ltr. Eins var ljóst að framundan voru talsverðar kostnaðarhækkanir, auk þess sem verðlag var óstöðugt. Það var því ljóst að verðstöðvun við þessar aðstæður á mjólkurverð til bænda, heilt ár fram í tímann, yrði greininni mjög þungbær. Því gátu forsvarsmenn kúabænda ekki fallist á það. Innan SAM var hinsvegar mjög ákveðið talað fyrir þessari leið. Fór svo að auk þess að lýsa yfir verðstöðvun allt næsta ár, tók mjólkuriðnaðurinn á sig, að lágmarki hækkun launaliðar mjólkurframleiðenda skv. verðlagsgrundvelli kúabús á tímabilinu. Fyrsta leiðrétting samkvæmt þessu var svo framkvæmd frá 1. okt. eða sem nam 2 kr/ltr.  
 
Óhætt er að segja að stórtíðindi séu að eiga sér stað í íslenskri mjólkurvinnslu. Á fulltrúafundi MS 28. desember s.l. var samþykkt að uppfæra stofnsjóð félagsmanna um sem nemur 1.500 milljónum króna og í framhaldinu gerðust framleiðendur á Norðurmjólkur svæðinu aðilar að MS. Um síðustu áramót tók svo til starfa eitt fyrirtæki um nánast alla vinnslu og sölu mjólkur í landinu undir nafni Mjólkursamsölunnar ehf.  Ekki er að efa að með þessu móti á að vera hægt að ná fram gríðarlegri hagræðingu í þessum geira og getur skipt sköpum um afurðaverð okkar til framtíðar litið. Því er hins vegar ekki að leyna að með þeirri ákvörðun að setja verðstöðvun á smásöluverð næsta ár auk þess að taka á sig hækkun launaliðar verðlagsgrundvallar mjólkurframleiðenda á sama tíma, er verið að taka umtalsvert út fyrirfram af væntanlegum ávinningi. Það hlýtur því að skipta miklu hvernig til tekst við rekstur þessa nýja fyrirtækis.


En hvað er framundan? Eftir hræringar haustsins virðist framtíð verðlagningar á afurðum okkar fullkomlega óljós og í raun má sega að við sjáum einungis út þetta ár hvað það varðar. Yfirlýsingar stjórnvalda verða tæplega skildar öðruvísi, en að verðlagning afurða okkar skuli framvegis ekki taka mið af kosnaðarhækkunum innanlands eins og verið hefur. Heldur meðalverði á sambærilegum vörum í nágrannalöndum. Þetta hlýtur að leiða huga okkar að þeim gríðarlega háa framleiðslukostnaði sem íslensk mjólkurframleiðsla býr við. Þessir hlutir komu til umfjöllunar félagsráðs á fundi 5. desember  og á opnum fundi með Valdimar Einarssyni ráðgjafa á Nýja- Sjálandi í Þingborg 7. desember. Á báðum þessum fundum var reynt að horfa með gagnrýnum augum á starfshætti okkar og umhverfi, fyrst og fremst til að vekja fólk til umhugsunar. Til skamms tíma er hins vegar mikilvægt að stjórnvöld gangi sem fyrst til viðræðna við LK um leiðir til lækkunar framleiðslukostnaðar. Eins er bráðamál að tollar á tilbúnar innfluttar kjarnfóðurblöndur verði að fullu felldir niður.


Góðir félagar. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að landbúnaðurinn sé hafður að bitbeini í  íslenskri þjóðmálaumræðu, en sennilega hafa atlögurnar sjaldan verið markvissari en síðustu misseri. Við getum þó tæplega borið á móti því að starfsgrein sem á jafn mikið undir opinberum afskiptum og mjólkurframleiðslan, verður alltaf viðkvæm fyrir gagnrýni og pólitískum hræringum. Það hlýtur því að vera markmið okkar til lengri tíma að draga eins og kostur er úr þörf okkar á afskiptum hins opinbera.


Hér hefur verið stiklað á stóru um þau verkefni sem komið hefur verið að á vettvangi félagsins síðasta ár. Auðvitað verður seint gerð tæmandi grein fyrir þessu starfi, en hér verður látið staðar numið. Að lokum vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef á samskipti við á vettvangi félagsins liðið ár, en þá ekki síst samstjórnar fólki mínu þeim Katrínu Birnu Viðarsdóttur og Jóhanni Nikulássyni, og síðast en ekki síst okkar ágæta aðstoðarmanni Runólfi Sigursveinssyni.”


2. Reikningar.  
Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey gjaldkeri gerði grein fyrir reikningum 2006 sem fundarmenn höfðu á blaði hjá sér.
Tekjur samt.1.124.933 kr. Gjöld samt.1.025.640 kr.  Rekstrarhagnaður ársins 2006 alls 99.293 kr. Samtals eignir um áramót  551.343 kr.


3. Kosningar:
Formaður.  Sigurður Loftsson var kosinn með 48 atkv.
Aðrir fengu færri.

Fundarstjóri útskýrði, að fyrir aðalfund var skipuð kjörnefnd sem í voru Elvar Eyvindsson Skíðbakka, Sigurjón Eyjólfsson Pétursey og Þórunn Andrésdóttir Bryðjuholti og gerði nefndin tillögu með 12 nöfnum á blað fyrir félagsráð og 29 nöfn fyrir aðalfund LK. Fundarstjóri sagða alla félagsmenn væru í kjöri þó svo gerð væri tillaga um ákveðna einstaklinga. 

Félagsráð 2007 kosið til tveggja ára.
Kosið var um 9 aðalmenn og 3 til vara, fundastjóri vakti athygli á að allir aðalmenn og varamenn eru boðaðir á félagsráðsfundi.
Niðurstaða kosninga var þessi:
Valdimar Guðjónsson    48 atkv.
Arnheiður Einarsdóttir Guðnastöðum  47 atkv. 
Gunnar Eiríksson Túnsbergi   46 atkv.
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir Nýjabæ  40 atkv.
Elín B. Sveinsdóttir Egilsstaðakoti  39 atkv.
Ragnar Magnússon Birtingaholti  39 atkv.
Þórir Jónsson Selalæk    38 atkv.
Guðrún Helga Þórisdóttir Skeiðháholti 37 atkv.
Ómar Helgason Lambhaga   35 atkv.
Varamenn:
Ólafur Helgason Hraunkoti   32 atkv.
Sigurjón Hjaltason Raftholti   28 atkv.
Sigurður Þór Þórhallsson Önundarhorni 25 atkv.
Aðrir fengu færri atkv.


Fyrir eru í Félagsráði eru (kosnir 2006).
Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey
Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála
Sigurður Loftsson Steinsholti
Birna Þorsteinsdóttir Reykjum
Grétar Einarsson Þórisholti
Ágúst Dalkvist Eystra Hrauni
Ólafur Kristjánsson Geirakoti
Guðbjörg Jónsdóttir Læk
Bóel Anna Þórisdóttir Móeiðarhvoli 2
Til vara: 
Sveinn Ingvarsson Reykjahlíð
Brynjar Sigurðsson Heiði
Björn Harðarson Holti.


Kosnir 8 fulltrúar á aðalfund LK og 8 til vara.
Jóhann Nikulásson Stóru- Hildisey.
Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála.
Grétar Einarsson Þórisholti.
Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ.
Sigurður Loftsson Steinsholti.
Birna Þorsteinsdóttir Reykjum.
Sigurlaug Leifsdóttir Nýjabæ.
Gunnar Eiríksson Túnsbergi.
Varamenn:
Arnheiður Dögg Einarsdóttir Guðnastöðum.
Ragnar Magnússon Birtingaholti
Elín B. Sveinsdóttir Egilsstaðakoti
Börn Harðarsson Holti
Guðbjörg Jónsdóttir Læk
Þórir Jónsson Selalæk
Bóel Anna Þórisdóttir Móeiðarhvoli
Sigurjón Hjaltason Raftholti


Kjósa á 5 fulltrúar á aðalfund BSSL og 5 til vara.
Fyrir þessa kosningu gaf fundarstjóri formanni orðið.

Formaður las upp tillögu frá stjórn:
“Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn á Árhúsum Hellu 29. janúar 2007 samþykkir að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands til félagsráðs. Kosningin skal vera skrifleg og leynileg.”
Fundarstjóri bar tillöguna upp til atkvæðagreiðslu og var hún samþykkt samhljóða.


Tveir skoðunarmenn reikninga og 2 til vara. 
Fundastjóri sagði að enginn skoðunarmaður hefði beðist undan kjöri, fundamenn stungu upp á sömu skoðunarmönum og staðfestu það með lófaklappi.
Skoðunarmenn reikninga eru:
Guðmundur Lárusson Stekkum og María Hauksdóttir Geirakoti.
Til vara: Rútur Pálsson Skíðbakka og Daníel Magnússon Akbraut.


Fundastjóri bauð Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur velkomna á fundinn.
 
4.  Matarverð og íslenskur landbúnaður, áherslur Samfylkingarinnar.
Ingibjörg þakkaði fyrir að vera boðin á þennan fund en sagðist vera mjög tímabundin, væri á leiðinni austur á land.
Sagði að efla þyrfti tengslin milli þéttbýlis og sveita,  75% íslendinga búi orðið á höfuðborgasvæðinu, nú verði að búa til sem hún kallar “sáttmála um nýtt jafnvægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis”.  Hún fari víðsvegar um landið til að kynna þetta.
Landsmenn  verði að standa til að ná þessari sátt, segir Írland hafi gert þennan sáttmála með því að ná öllum hópum saman úr mörgum geirum í þjóðfélaginu svo sem, náttúrverndar og nýtingar, landsbyggðar og þéttbýlis, launafólks og fjármagnseigenda, innflytjenda sem og annnara hópa sem eru í landinu.
Segir flest lönd hafa styrkjarkerfi í einhverri mynd, t.d. beingreiðslukerfi, flest hafa tollakerfi til að tryggja innlendri framleiðslu ákveðið forskot í verðlagsmálum og yfirleitt séu innflutningshömlur á heilbrigðisforsendum en einstaka ríki hafa tekið það upp þá stefnu að landbúnaður skuli rekinn á markaðsforsendum.
Ingibjörg segir að formaður FKS hafi lagt fyrir sig að fjalla um viðhorf Samfylkingarinnar um mjólkurframleiðslu og efnisatriði sem voru í tillögu sem lögð var fram á Alþingi frá Samfylkingunni og las helstu efnisatriði tillögunnar upp:



  1. Vörugjöld á matvæli verði felld niður.
  2. Tollar á matvæli verði felldir niður í áföngum og við það miðað að 1. júlí nk. verði helmingur þeirra afnuminn. Niðurfelling eftirstandandi tolla verði ákveðin að höfðu samráði við hagsmunasamtök bænda og neytenda.
  3. Virðisaukaskattur á matvæli verði samræmdur þannig að 7% virðisaukaskattur verði lagður á öll matvæli.
  4. Í samráði við bændur verði fyrirkomulagi stuðnings við landbúnað breytt m.a. til að gera bændum kleift að aðlagast aukinni samkeppni vegna innflutnings. Auk þess verði gerður sérstakur tímabundinn aðlögunarsamningur við bændur fyrir 1. júlí nk. vegna niðurfellingar tollverndar.
  5. Samkeppnis- og verðlagseftirlit á matvælamarkaðinum verði stóraukið.

Hún sagði að vilji væri að hækka beinargreiðslur til að mæta áhrifum tollalækkanna á búgreinina og styrkjakerfið þróað í átt að umhverfisgreiðslum og grænum byggðagreiðslum og útfæra það í náinni samvinnu við bændur.


Ingibjörg Sólrún sagðist ætla að svara þeim spurningum sem voru í vandvirknislega unnu erindisbréfi sem Sigurður Loftsson sendi henni fyrir fundinn.


• Mun fyrst verða lögð vinna í að meta áhrif þessa á afkomu einstakra búgreina?
Svar: Já, samráð er lykilorðið að allri okkar nálgun um nýtt jafnvægi, það yrðu metin áhrif á matvælaverð og einstakar greinar, þannig að áhrifin komi sem minnst við búgreinarnar og þeim áhrifum mætt á skynsamlegan hátt
.
• Kemur til greina að viðhalda hluta tollanna komi í ljós að þeir séu lífspursmál fyrir einstakar búgreinar svo lengi sem það færi ekki í blóra við alþjóðaskuldbindingar landsins ?
Svar: Enginn vilji ganga að einstökum búgreinum dauðum og mikilvægt að hafa tíma til aðlögunar. Segir Samfylkinguna vilja stefna á aðild í Evrópusambandið, gera þar samning sem þjóðin myndi taka afstöðu til.


• Varðandi breytt fyrirkomulag á stuðningi vakna sú spurning,  hvort um er að ræða nýjar stuðningsgreiðslur til að mæta áhrifum tollalækkana eða nýjar útfærslur á þeim stuðningi sem þegar er fyrir hendi ?
Svar: Sagðist enginn sérfræðingur hvað sé hagkvæmast fyrir einstaka búgreinar en hefði haldið að nauðsynlegt sé að halda núverandi stuðningi og vera í samráði við bændur svo allir geti verið sáttir.
 
• Núverandi stuðningur er misjafn milli greina og er í sumum tilfellum nánast eingöngu bundinn við tollvernd meðan í öðrum tilfellum m.a. nautgriparækt er um talsverðar beinar stuðningsgreiðslur að ræða frá ríkinu. Ef breyta á formi núverandi stuðnings, er þá ætlunin að hann nýtist þeim greinum sem hans njóta í dag ?
Svar: Markmiðið er að mæta þeim neikvæðum áhrifum sem þetta hefði á einstaka greinar í samráði við greinarnar og efla aðrar greinar, m.a. nýjar greinar og breytta búskaparhætti. Endurskoða þurfi allt styrkjakerfið, til að efla byggð og bæta efnahag.


• Fram kemur að um tímabundnar beinar greiðslur og umhverfisstyrki verði að ræða. Er hugmyndin að með tíð og tíma verði fallið frá opinberum stuðningi við íslenska nautgriparækt að hlut eða öllu leyti.
Svar: Nei það sé ekki hugmyndin, taka þurfi eitt skref í einu og sjá hvernig þetta þróaðist, fara frá framleiðslutengdum greiðslum til byggðartengdra greiðslna.


•  Um nýliðin áramót varð til eitt rekstrarfélag um mest alla mjólkurvinnslu á Íslandi með það að leiðarljósi að ná fram umtalsverðri hagræðingu í þessum rekstri. Eins var nú í haust lýst yfir verðstöðvun á mjólkurvörum til neytenda næsta ár. Hvernig horfa þessar aðgerðir frá hendi mjólkur framleiðslunnar við Samfylkingunni?
Svar: Það er alveg nauðsynlegt að ná hagræðingu, hvort sem er í rekstri, framleiðslu eða fullvinnslu, samkeppnislög þurfa að ná um þessa grein og gæta þarf almennra leikreglna.
Er ekki trúuð á að hafa aðeins einn kaupanda á afurðum sínum. Finnst verðstöðvunin, til að halda afrtur af hækkunum á vöruverði, mjög virðingarverð af bændum.


•  Komi tillögur Samfylkingarinnar til framkvæmda, munu þá íslenskir bændur geta treyst því að rekstrarumhverfi þeirra verði það sama og er í samkeppnislöndunum  frá hendi hins opinbera m.t.t. aðfanga, búfjár og umhverfisþátta?
Svar: Skoða þurfi alla þætti í rekstrarkostnaði í landbúnaði, fóðurtolla, raforkuverð sem hefur hækkað, og tilraunir með nýtt kúakyn en þar þurfi að fara varlega og passa upp á að halda okkar stofni hreinum.


Ingibjörg segir að markmiðið sé að hafa öflugan landbúnað í sátt við aðra landsmenn. Jafnræði í rekstrarumhverfi bænda í nágrannalöndunum er grundvallaratriði.
Stærsti liður ríkisins til stuðnings landbúnaði samkvæmt fjárlögum ár hvert er til mjólkurframleiðslu, um 8 milljarðar sem skiptast niður í beingreiðslur sem eru 4 milljarðar, kynbóta- og þróunarfé 3,5 milljarðar, gripagreiðslur áætlaðar 100 milljónir. Óframleiðslutengdur stuðningur þ.á.m. grænar greiðslur um 350 milljónir.
Krafa landsmannna er að þessum fjármunum sé vel varið í stuðning við byggð í dreyfbýli landsins, lækkun á vöruverði til neytenda og náttúrunytja.
Ríkisstuðningur hafi verið söluvara á undanförnum árum og verðlag á honum farið með himinskautum.
Telur spurningu um verslun með ríkisstuðninginn sé óeðlileg og komi illa við greinina, það skuldsetji greinina og takmarki nýliðun, þetta verði að endurskoða, en til að öðlast framleiðsluréttinn og ríkisstuðninginn sé eðlilegra að fá hann tímabundið til afnota í stað þess að kaupa réttinn.
Tekur sem dæmi að ef byggingarkostnaður pr. kú sé 350 þús. kr. en kvóti/kú (5.500 ltr á ári), tæpar 2 millj. kr. og af þessu dæmi sé ekki óeðlilegt að svona kostnaður komi einhver staðar fram og á endanum í verði mjólkurinnar.  Ef  þetta er raunin þá hljóti það vera nauðsynlegt að leita leiða til að vinna gegn því. Vitnar í orð Valdimars Einarssonar af bændafundunum, að þessu verði að breyta.
Segir að nú sé komið að grundvallarspuningunni, á að vera mjólkurframleiðsla á Íslandi, svar hennar er; já, hún er undirstaða byggðar á landsbyggðinni og standa þurfi við bakið á greininni og finna farveg fyrir stuðninginn til framtíðar með sanngjörnum hætti, þar sem allir eru sáttir.
Ógnanir og tækifæri eru alls staðar, þar á meðal í háu verði á bújörðum sem geti hamlað nýliðun. Segist ósátt við framkvæmd þjóðlendulaganna, ekki hafi verið gætt meðalshófs gagnvart bændum og landeigendum.
Ingibjörg Sólrún segir að Samfylkingin ætli að vinna með bændum að bættum aðstæðum til landbúnaðar, náttúrunytja og öflugri Íslandsbyggð.


Fundarstjóri, þakkaði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og gaf orðið laust um hennar framsögu:

Samúel Eyjólfsson Bryðjuholti, sagði byggingarkostnaður á fjósi væri allt að helmingi meiri en kom fram í máli Ingibjargar.

Guðmundur Stefánsson Hraungerði, spurði hvers hún vænti af matarkostnaði eftir tollalækkanir, einnig á öðrum vörur sem innflutningtollar hafa ekki áhrif á, t.d. fatnaður, brauð og fleira, sagðist hafa heyrt að lítri af mjólk kosti 500 kr. í Grænlandi.

Runólfur Sigursveinsson ráðun. Bssl sagði Ingibjörgu vera með rangar tölur um stuðning til kúabænda, hann væri ekki um 8 milljarðar, heldur 4 -4,5 milljarðar á ári.  

Guðmundur Lárusson Stekkum, þakkaði stjórn fyrir að hafa boðið Ingibjörgu Sólrúnu á fundinn, eftir málflutning Samfylkingar um áherslur í íslenkum landbúnaði sem komu fram í sl. haust. Telur að bændur eða Bændasamtökin hafi túlkað þau þannig að það yrðu endalok hjá mjólkurframleiðendum. Finnst oft vera ansi djarflegur málflutningur hjá Samfylkingunni eins og Ingibjörg eigi kyn til, telur skynsamlegra að tala af meiri gætni og fá ekki alla upp á móti sér svo tekið verði fullt mark á því sem sagt er. Vill að farið sé hægt, telur þessar tillögur hafi verið settar fram í misskilningi, af mikilli vanhugsun og af mikilli óbilgirni.

Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ, þakkar stjórn að bjóða Ingibjörgu á fundinn, sagði algörlega ofmetið hve áhrif yrðu á tollalækkunum og einnig stuðningsformið, þessar leiðir verði ekki til að lækka verð. Stuðningformið hér á landi hefur verið skilvirkt, gagnsætt, einfalt, svoleiðis sé best að hafa það.  Í staðinn fyrir að fara í frumskóg ESB ríkja, sem er ógagnsætt kerfi, þar sé greitt út á hæðir og hóla, óræktaða kornakra, eftirlitið er jafnvel með gervitunglum, svoleiðis kerfi sé ekki til bóta fyrir byggðina. Vegna matarverðshluta þá sé launahlutfallið til matarinnkaupa meginmálið. Ofmetið 5% matarverð af útgjöldum heimilanna, æst upp í fjölmiðlum og finnst með ólíkindum áhrifin af þessu á alla umræðu.
Meðan mjólkurframleiðendur eru að taka á sig umsamda hækkun mjólkurvara, þá eru birgjar og aðrir, eins og kjarnfóðursalar og flutningafyrirtækin, að hækka þvers og kruss.

Sigurður Loftsson þakkar Ingibjörgu fyrir að þekkjast boðið á fundinn. Vill benda henni á hversu mikilvæg tollverndin sé fyrir greinina m.v. stöðuna í dag.
Vörur eins og ostur og mjólkurduft nema u.þ.b. 50 milljónir lítra af 116 milljóna lítra greiðslumarki, það yrði ansi stór biti og erfiður ef inn flæddi ostur og mjólkurduft við þær aðstæður sem við höfum.
Samfylkingin leggur til að ganga í Evrópusambandið, það samningarferli getur tekið langan tíma en ef vel tækist til við að semja, þá gæti þessi grein orðið mun betur sett þar frekar en ef tollarnir yrðu teknir af núna eins og lagt er til, 50% nú í ár og hitt samningsatriði á næstunni.
Reynslu er hægt að sækja til Finnlands. Þar hafa kúabændur lifað af en það er megin atriði fyrir kúabændur að á meðan breyting stendur yfir fái greinin ríflegan stuðning og aðlögunartíma.. Skuldir bænda eru miklar, voru  ca.25 milljarðar síðla árs 2006. Flest af því fólki sem skulda þetta er unga fólkið í greininni sem við stólum á að framleiði mjólkina í framtíðinni. Þetta býr til mikinn fastan kostnað sem nauðsynlegt er fyrir greinina að geta unnið sig út úr á meðan breyting stendur yfir.
Telur fullvíst að ef 50%  tolla falla niður, þá gætu áhrifin orðið þau að greinin missti marga af framleiðendum sem hafa verið að byggja sig upp síðustu misseri, tekjulækkun yrði slík að  kúabændur gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar. Greinin þarf á löngum aðlögunartíma að halda.

Arnar Bjarni Eiríksson Gunnbjarnarholti vildi benda á, að grænu greiðslurnar sem mikið er talað um að sé bjargvættur íslenska landbúnaðarins, séu til að taka taktinn úr eðlilegri búvöruframleiðslu. Í WTO-viðræðum gangi misvel að koma þeim á en krafa stóru framleiðendanna eins og Bandaríkjanna, Nýja-Sjálands o.fl.er að auka þátt grænu greiðslanna til að botninn detti úr framleiðslu annarra landa. Hins vegar á búskapur  að byggjast á praktískri hugsun á framleiðslu matvæla m.t.t. magns á hverjum tíma fyrir markaðinn hverju sinni.
Eins nefndi Arnar að styrkjakerfi Evrópusambandsins einblínir á eitt og eitt ár í senn, núna er það Bio-disel. Í það fara gríðarlega miklir styrkir, þar af leiðandi hefur fóðurverð rokið upp á þeim svæðum. Arnar varar við of stórum stökkum sem geta ekki verið til góðs. Tók undir orð Valdimars um hluta innlendrar búvöru í vísitölu neysluverðs er ekki hærri en raun ber vitni. Ekki alltaf hægt að “hengja bakara fyrir smið”  og líkir því saman við vörurnar, brennivín og skó, aldrei er skoðuð verðþróun þeirra eða samanburð við verð í nágrannalöndum. Alltaf er hamast á þessum 5% útgjalda heimilanna sem er innlendi matvælaþátturinn.


Ingibjörg Sólrún svarar:
Þakkar fyrir ágætar ábendingar og spurningar. Segir tölur um byggingu fjóss hafi hún fengið m.a. frá Bændasamtökunum en kannski vanti tækjabúnað eða eitthvað slíkt.
Taldi þessar tölur um stuðning við nautgriparækt vera réttar, þær hafi verið teknar úr opinberum gögnum.
Segir tillögur þeirra væri 240 þús. kr lækkun á matvæla á heimili og af því væri ca. helmingur tollar svo virðisaukaskattur og vörugjöld.
Sagði að henni fyndist mjög miður hvernig karpið hefði orðið milli sín og framkvæmdastjóra Bændasamtakanna eftir að tillögurnar voru kynntar. En allt væri gott í dag, best sé að ræða málin til að finna lausnina.
Segir, að  ekki sé hæt að bera saman verð á  brennivíni og skóm á móti matvöru, hægt sé að neita sér um brennivín og skó en ekki matvöru.
Margir þættir séu alltof dýrir á Íslandi eins og vextir, matarverð, lyfjakostnaður; því þurfi að breyta. Háir vextir komi líka við bændur m.a. þar sem þeir skuldi svo mikið. Talað sé um að hún tali upp evruna og niður krónuna. Ljóst að íslendingar sækja meira í að taka lán í evrum vegna verðtryggingar og hárra vaxta á íslenskum lánum.
Segir að vilji hennar sé ekki að koma með allsherjarlausn á málunm og beygja aðra niður í duftið.  Þróa verði allt þetta svo íslenskur landbúnaður geti við það lifað.
Vegna WTO-umræðna, er spurningin ekki hvort heldur hvenær, og auðvitað þarf tíma til að aðlagast og bregðast við.
Ef gengið verður í Evrópusambandið þá þýddi það að tollar leggist niður innan þess en tollar þar fyrir utan, samræða sé nauðsynleg í þessu öllu.


Birna Þorsteinsdóttir sagðist vilja benda Ingbjörgu á að kynna sér fólkið sem starfar í landbúnaðinum Bændur eru ekki undir  klöfum og viðjum, þeir eru mjög tæknivæddir, vel menntaðir, búnir að byggja upp myndaleg og tæknivædd bú,  fólk sem aflar sér þekkingar víða, bæði innalands og erlendis. Hins vegar er það óþolandi að bændur þurfi að búa við lélegt gsm- og netsamband.

Ingibjörg Sólrún vildi ítreka það sem hún sagði í byrjun að hún teldi sig vita það mjög vel hvernig bændur lifðu í dag enda af bændastétt komin, mikil tæknivæðing og þróun en samhliða hefur fólki í dreifbýli fækkað og m.a. flutt sig á höfuðborgasvæðið og spurningin sé hvernig hægt sé að snúa þessari þróun við, vill sjá fleiri valkosti og úrræði í sveitum landsins. Sagðist viss um að margir myndu kjósa að búa úti á landi ef atvinna væri til staðar.


Kaffihlé í boði FKS.


5. Önnur mál.
Sigurður Loftsson lagði fram tillögu um  lagabreytingu sem kynnt hafði verið fundarboði. Tillaga til breytingar á 5. grein laga Félags kúabænda á Suðulandi:
„Innan félagsins skal starfa félagsráð. Í því skulu sitja, auk formanns, 18 fulltrúar og 6 til vara, sem kosnir eru leynilegri kosningu á aðalfundi til tveggja ára. Kosningu er hagað þannig að árlega eru kosnir 9 aðalmenn og 3 varamenn. Að lágmarki skulu vera 2 fulltrúar úr hverri sýslu í félagsráði. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi, leynilegri kosningu til eins árs í senn. – Félagsráð kýs sér ritara og gjaldkera, sem og aðrar trúnaðarstöður sem ekki er sérstaklega kveðið á um. Það annast málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður félagsins er jafnframt formaður félagsráðs og ritari varaformaður. – Félagsráði er heimilt að skipa kjörnefnd sem leitar eftir framboðum og tekur við uppástungum á fólki til starfa á vegum félagsins.“ 


Fundarstjóri bar tillöguna upp í atkvæðagreiðslu.
Samþykkt samhljóða.


Sigurður Loftsson lagði aðra tillögu fram f.h. stjórnar eftirfarandi tillögu:
“Aðalfundur félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum Hellu 29. janúar 2007 skorar á landbúnaðarráðherra að fella nú þegar niður alla tolla á innfluttar kjarnfóðurblöndur”.
Greinargerð:
Í tengslum við tillögur ríkissjórnarinnar til lækkunar matvælaverðs sl. haust lýsu Samtök afuðarstöðva í mjólkuriðnaði yfir verðstöðvun á mjólkurvörum frá skráðu verði 1. janúar 2006 og út yfirstandandi ár. Þrátt fyrir að jafnframt þessu hyggst afurðarstöðvarnar greiða framleiðendum hækkun launaliðar verðlagsgrundvallar mjólkur þetta tímabil, sigja þeir eftir sem áður uppi með kostnaðarhækkanir á aðföngum til búrekstrarins. Síðustu misseri hafa verið umtalsverðar hækkanir á verði fóðublandna til mjólkurframleiðenda.
Fundurinn minnir á að verð kjarnfóur til mjólkurframleiðslu hefur áhrif á verðmyndun afurða og þar með matvælaverð.


Fundarstjóri bar kjarnfóðurtillögu upp í atkvæðagreiðslu.
Samþykkt samhljóða.



Grétar Einarsson Þórisholti telur mest brenna á stjórn, félagsráði og okkur krafan um sama verð og í nágrannalöndunum, bændur hafa tekið á sig verðstöðvun þó svo að aðrir telji sig ekki þurfa þess. Hér virðist allt hækka nema landbúnaðarvörur, þar á meðal aðföng til bænda og telur að við vera vel vakandi, halda því vel á lofti  að mjólkurvörur hækka ekki næstu mánuði.


Sigurlaug Hanna Leifsdóttir Nýjabæ sagði varðandi skyldumerkingar í nautgriparækt þá vildi hún vekja athygli á ef keyptar væru kýr eða kvíga á búið sem eru með sama númeri, nema bæjanúmer. Sigurlaug telur að merkingar séu að snúast í andhverfu sína ef ekki sé gert ráð fyrir þessum hlutum, vildi setja einn staf framan við til aðgreiningar en fékk ekki heimild til þess.
Upplýsti að félagsráðsmenn eru launalausir ef þeir keyra ekki á sínum bíl á félagsráðsfund, bara sé greitt fyrir keyrða km. Annað sé ekki greitt fyrir, vill heyra hjá félagsmönnum hvort þeir hafi skoðun á þessu.
Einnig hvetur hún félagsmenn að hafa samband við félagsráðsmenn ef þeim finnst eitthvað sem þurfi að ræða.


Samúel  Eyjólfsson Bryðjuholti ræddi tillögu um sameiginlega dreifingastöð á Reykjavíkursvæðinu fyrir landbúnaðarvörur. Hagræði hlyti að geta orðið með þessu móti. Lagði fram eftirfarandi tillögu:.


“Aðalfundur félags kúabænda á Suðurlandi haldinn 29. janúar 2007 að Árhúsum Hellu samþykkir að beina því til afurðarstöðva í landbúnaði að skoða hvort haghvæmt sé að byggja sameiginlega dreifingarmiðstöð fyrir landbúnaðarafurðir á höfuðborgarsvæðinu.”


Egill Sigurðsson Berustöðum, vill láta koma fram að ekki hafi rétt krónutala komið fram hjá Ingibjörgu Sólrúni eins og hún sagði 8 milljarðar en voru 4 milljarðar. 1.jan. 2004 og uppfærð er um 4,5 milljarðar í dag.
Hvetur menn að samþykkja tillögu Samúels ef þetta yrði til að lækka kostnað til neytenda og fagnar tillögunnni.

Guðmundur Lárusson Stekkjum, vill ítreka betur í tillögunni við hverja er átt í afurðarstöðvunum sem væri þá MS og SS.
Telur að umræðan um matvælaverð sé ekki hætt, frekar rétt að byrja.
Leiðir sem við getum farið í þessum málum líkt og í nágrannalöndunum; er að stækka búin, bæta afurðargetu kúnna til að gera reksturinn haghvæmari, flytja inn nýtt kúakyn, mjólkuriðnaðurinn er að hagræða sem mun skila sér,  krafan er sú að lækka skuli matarverð, þá er okkar krafa að við búum við sama starfsskilyrði að aðföngin séu á svipuðu verði  og hjá þeim bændum sem við keppum við.
Þakkar stjórn farsæl störf og biður stjórn að halda áfram kröftugu starfi.
Spyr Baldur Helga um fréttir frá  LK,  t.d. hefði hann heyrt í manni sem væri í vinnuhópi um kálfadauða, sá sagði í fjölmiðli að sú niðurstaða væri komin um að kálfadauðinn hefði ekkert með kúakynið að gera, áður en nokkur önnur niðurstaða væri komin?

Gauti Gunnarsson Læk þakkar stjórn, styður tillögu Samúels. Segir að forystumenn bænda megi ekki stoppa verðbreytingar og sjá bara sjálf um að ákveða verð á afurðum. Finnst óeðlilegt að ráðuneytið neiti öllu starfi í nefndarstarfi.

Guðmundur Stefánsson telur að mikill peningur yrði ef greiða ætti öllum sitjandi félagsráði sem eru ansi margir.
Telur að byrjað sé að fara eftir tillögum Samfylkingar, þ.e. að ríkisstjórnin hafi byrjað, bændur þurfi að gera sér grein fyrir því hvað t.d. erlendir ostar kosta hér, að dýrt sé að vera með verslun á dýru svæði, það þarf að afskrifa þetta, þá þarf að leggja mikið á vörurnar jafnt þó vörur komi erlendis frá og verslunaraðilar væru jafnvel tilbúnir fara mjög neðarlega með innfluttu vörunar, jafnvel að gefa vöru sína til að tukta okkur til ef tollar færu.


Fundarstjóri bar upp tillögu Samúels um sameiginlega dreifingarstöð. Tillagan samþykkt samhljóða.

Daníel Magnússon Akbraut segist hugsa til þess að þegar framkvæma á í túninu heima hvað bændur eru að borga fyrir rafmagn, þar af leiðandi er íslenska grænmetið dýrara hér en annar staðar. Ef grænmetisbændur fengju rafmagnið á sama verði og álverin þá gæti gænmetið verið ódýrara.
Sæðingargjöldin eru ekki rétt, hann hefur greitt fyrir 4 fleiri kýr árið 2006 en hann hafði. Markkerfið ekki að virka, finnst hann borga nóg samt.  Gagnrýndi sæðinganámskeiðið sem hann tók þátt í.
Gagnrýndi nautavalið og segir að kynbótamatið sé ekki rétt og vill fá skýringu og segir sínar kvígur seljanlegri en aðrar.
Kálfadauði sagði hann ekki til, hvorki hjá sér né Kalla á Bjargi, þakkar það frábæran árangur í geldstöðufóðrun með kalísnauðu heyi, gefur síðan hey sem er með miklu kalí strax um burð sem hefur áhrif á prótein og fitu í mjólk, eykur nyt, betra að festa fang. Vill  að þetta ætti að koma fram á tilraunabúum.

Arnheiður Dögg Einarsdóttir Guðnasöðum,  vill sjá nefnd sem myndi kanna matvælaverð í nágrannalöndum.Vill sjá fjölmiðlafulltrúa fyrir bændur.
Hvetur menn að skrifa greinar í blöðin og spyr hvort einhver gæti safnað saman pistlum um landbúnaðinn úr dagblöðunum koma þeim saman á einn stað sem við bændur getum sótt á netinu.
Telur ef kalí er minna í hey gefi það ekki eins mikla mjólk og ekki eins mikil verðefni.

Karl Jónsson  Bjargi. Segir kalí í heyjum þurfi að lækka á geldstöðu og auka hjá mjólkurkúm
Telur landbúnaðarfólk verða að upplýsa borgarbúa um störf okkar í sveitinni. Bændur þurfa að kynna störf sín með upplifun.

Runólfur Sigursveinsson ráðun. Bssl, vill vekja athygli á hvernig greinin er að þróast í framleiðslukostnaði og farið að nálgast bruðl, hæsti framleiðslukostnaður á hverja einingu í heiminum hjá okkur. Danski bóndinn fær um 26 kr. með ca.10% í formi beinna styrkja, auk óbeins stuðnings, samtals. raunverð ca. 30-34 kr. en íslenski bóndinn alls ca. 84 krónur/l, þarna er gífurlegur munur, bændur verði að draga úr kostnaði, þetta eru litlar einingar en mikið bundið fjármagn, kvótaviðskipti eru að kosta greinina um 10-12 kr/l. á ári sem er viðvarandi kostnaður og færist til næstu kynslóðar. Danskir bændur eru að undirbúa sig m.t.t. að eftir 2015 verði ekkert kvótakerfi í mjólk innan ESB. Spyr hvort svipuð nálgun um afnám kvótakerfis hér á landi sé ekki einn þáttur sem ástæða sé að ræða.
Gífurlegar vélafjárfestingar hafa verið í gangi síðustu ár  Þarna verða bændur  leggja áherslu á að lækka kostnað. Iðnaðurinn er að vinna í hagræðingu og bændur þurfa að gera það einnig.
Segir að verið sé alla daga að vinna í fréttamiðlun á vef BSSL og hjá LK og og tekur undir hjá Örnu að skrifa fleiri greinar í blöðin sem er alveg ómetanlegt, telur það mikilvægara en fjölmiðlafulltrúa.
Vakti athygli á námskeiðum sem boðið er upp á næstu vikurnar á St-Ármóti. Þessi námskeið eru eftirfarandi: Lækkun kostnaðar í mjólkurframleiðslu, lækkun fjármagnskostnaðar og lækkun búvélakostnaðar.

Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK.
Varðandi Markið þá segir hann ekki hægt að breyta númeri, hver gripur heldur alltaf sínu númeri.
Vinna í kjölfar ályktunar á síðasta aðalfundi LK um innflutningsmál  gengur ágætlega. Á Írlandi er verið að vinna í samanburði kúakynja, búið er að setja sig í samband til að fá upplýsingar en engar niðurstöður eru komnar enn. Írarnir keyptu 400 kvígur erlendis til að kanna hvaða kyn komi best út. Niðurstöður starfshóps um innflutning á nýju kúakyni verða kynntar á næsta aðalfundi LK.
Varðandi verðlagsumræðuna þá sagðist hann hafa birt á vefnumtölur um kjarnfóðurverð, þar  er um 100 % munur á verði hér á landi  og í Danmörku.
Baldur vakti athygli á  þróun verðlags í öllum megin liðum neysluverðvísitölunnar sem eru 12 talsins. Hins vegar  er bara talað um mat og drykk sem eru 61,6% dýrari hér á landi heldur en í Evrópusambandslöndunum 15, ekki talað um áfengi sem er 135% dýrara, föt og skó sem er 63% dýrara, heilsugæslu 50% dýrari o.s.frv.. Verðlag á matvöru er í takt við allt annað á Íslandi og það er ætlast til að þeir sem vinna með þessa vöru eða eins og sagt er “frá haga til maga” vinni í allt öðru efnahagsumhverfi en allir hinir.
Fannst athyglisvert að formaður Samfylkingarinnar minntist á Finna þegar þeir gengu í Evrópusambandið, þá lækkað verð til framleiðenda um 40-50% en til neytenda lækkaði það um 10%.
Baldur nefndi að hann fengi sent efni frá fjölmiðlavakt sem tengdist nautgriparækt og kæmi því síðan að hluta áfram í gegnum vef LK. Einnig væri hægt að fá uplýsingar hjá honum beint ef menn vilja fá einhverja upplýsingar um einhverja ákveðna grein. Baldur tekur undir það að skrifa sem flesta pistla í blöðin.
Varðandi opinbera verðlagningu þá verði að velta upp verðtilfærslunni sem sett er þannig upp að mjólk sé ekki sjálfbær á markaði, sem er fráleitt, t.d. kosti nýmjólk í Færeyjum og Noregi  120 kr/l út úr búð. Gat þess að aukið hefði verið við tollkvóta í osti u.þ.b. 100 tonn.
Vill sjá stimpilgjald aflagt, erfitt að hagræða í lánamálum þegar menn eru svo bundnir vegna stimpilsgjaldsins. Meiri möguleikar til að skipta um tryggingarfélag svo dæmi sé nefnt.
Varðandi kynningarmál í landbúnaði þá þyrfti að skoða möguleika á að endurvekja verkefnið “Bændur bjóða heim” sem var fyrir nokkrum árum , þar skapast persónuleg tengsl við grasrótina.

Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey. Vegna breytinga á fyrirkomulagi greiðslna til kúabænda þá er nauðsynlegt og gera ákveðna breytingu á fyrirkomulagi greiðslu stjórnarlauna. Lagði fram eftirfarandi tillögu:
“Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum Hellu 29. janúar 2007 samþykkir að árgjald félagsmanna og laun stjórnar verði framvegis framreiknað miðað við vísitölu neysluverðs”.
Greinargerð:
Núna er verðlagsgrundvallarverð mjólkur sá grunnur sem árgjald og laun stjórnar er miðað við þannig að;
árgjald er miðað við grundvallarverð 30 lítra mjólkur eða 2.578 kr., 
laun formanns 1200 lítra mjólkur eða 103.104 kr.,
laun ritara 600 lítra mjólkur eða  51.552 kr.;
laun gjaldkera 600 lítra mjólkur eða  51.552 kr..

Nú er staðan sú að verðlagsgrundvallarverð á mjólk er ekki lengur til.
 
Fundarstjóri bar tillöguna upp til atkvæðagreiðslu. 
Samþykkt samhljóða.



Formaður vill þakkaði góðan stuðning til stjórnar, segir gott að hafa það veganesti því eins og fram hefur komið er meiri óvissa en oft hefur verið. Vildi koma því til félagsráðsmanna að stefnt væri á fund annan hvorn daginn 19.eða 20. febrúar n.k.
Þakkaði  góðan fund og sleit fundi.


Katrín Birna Viðarsdóttir, fundarritari.


back to top