8. fundur 2000

Fundargerð

Stjórnarfundur 2. nóvember 2000

Stjórnarfundur haldinn að Hlíðarenda Hvolsvelli 2. nóvember 2000. Til fundar var stjórn og varastjórn boðuð. Mættir voru Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Egill Sigurðsson og Ragnar Lárusson. Forföll vegna sandbyls boðuðu Valur Oddsteinsson og Tómas Pálsson. Aðrir sem boðuðu forföll voru Guðmundur Stefánsson, María Hauksdóttir og Rúnar Andrésson. Þá voru auk þess mættir, Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri og Ólafur Þór Þórarinsson sem ritar fundargerð.

  1. Fundargerð síðasta fundar.
    Sveinn las fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.
  2. Rekstur og starfsemi Búnaðarsambandsins.
    1. Búnaðarsambandið. Sveinn og Ólafur lögðu fram rekstraryfirlit fyrir fyrstu 8 mánuði ársins og samanburð við fyrra ár. Töluverð umræða var um búnaðargjald og vildu fundarmenn frekari sundurliðun varðandi uppgjör á því og skiptingu eftir búgreinum. Bent var á að æskilegt væri að sundurliða annan kostnað betur.
    2. Kynbótastöðin. Sveinn fór yfir rekstur Kynbótastöðvarinnar. Menn voru frekar bjartsýnir þrátt fyrir slæma stöðu fyrstu 8 mánuðina, enda var gert ráð fyrir tapi í áætlun. Steinþór Runólfsson er í veikindafríi en á meðan er störfunum sinnt af öðrum frjótæknum og hugsað er um að fækka um einn frjótækni síðar ef það gengur vel upp. Sveinn kynnti hvernig framlög frá ríki til sæðingastarfsemi hafa dregist saman síðasta áratug.
    3. Sauðfjársæðingastöðin. Sveinn fór yfir starfsemi Sauðfjársæðingarinnar sem er í góðum tengslum við fjárbændur. Þátttaka utan Suðurlands hefur aukist verulega og á síðasta ári voru 3716 ær utan Suðurlands sæddar með sæði frá stöðinni. Djúpfryst hrútasæði var selt til USA 3. árið í röð. Heildarverð sem fékkst fyrir sæðið var kr 960.000 og urðu nokkrar umræður meðal stjórnarmanna um verðlagninguna. Verð á líflömbum er mjög hátt vestan hafs. Stefnt er að því að taka þátt í sýningu á sauðfjárkynjum í New York að ári og kynna starfsemi Sauðfjársæðingastöðvarinnar Samþykkt að gera kynningarmyndband um hrúta til sölu á sæði erlendis og hefur verið sótt um styrk til Framleiðnisjóðs. Hrútaskrá verður gefin út á landsvísu. Samþykkt var að verð á sauðfjársæði til bænda verði 200 kr á kind. Fjárræktarfélögin á Suðurlandi fá 10% afslátt.
    4. Stóra Ármót. Sveinn fór yfir stöðu og verkefni á Stóra Ármóti. Miklar fjárfestingar hafa orðið það sem af er árinu. Nýtt mjaltakerfi frá SAC tekið í notkun og mjaltabás ásamt gólfi í biðplássi mjaltabás og mjólkurhúsi. Keyrt var í plön umhverfis fjósið og umhverfi lagað. Fóðurgangar hafa verið málaðir, básinnréttingar endurbættar og nýjar rennihurðir settar á hlöðu. Þá var keyptur mjólkurtankur, mykjudæla og sláttuþyrla. Alls hefur verið fjárfest fyrir um 7 milljónir án vsk á árinu.
  3. Skipun laganefndar.
    Samkvæmt tillögu frá síðasta aðalfundi um að stjórnin skipi nefnd sem hafi það verkefni að skoða félagslega uppbyggingu Búnaðarsambands Suðurlands með það að markmiði að einfalda það var ákveðið að skipa í nefndina Guðmund Stefánsson, Hraungerði, Guðna Einarsson, Þórisholti og Ólaf Einarsson, Hurðabaki. Til vara Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum og Ragnar Lárusson, Stóra-Dal.
  4. Formannafundur.
    Samþykkt var að næsti formannafundur Bssl. yrði haldinn 30. nóv. á Selfossi. Reynt yrði að fá eftirfarandi efni á formannafund:Kjartan Jóhannsson; Kostir og gallar fyrir landbúnað að ganga í EB.
    Sigurgeir Þorgeirsson; Framtíðarsýn Bændasamtakanna.
    Sveinn Sigurmundsson; Framtíðarsýn Búnaðarsambandsins.
    Nýja-Sjálands ferð í máli og myndum.
    Ávarp gesta.
  5. Skipan í Búnaðarráð.
    Tekið var fyrir skipun í Búnaðarráð og var formaðurinn, Þorfinnur Þórarinsson, skipaður.
  6. Önnur mál.
    Rætt var um nýja reglugerð um aðbúnað hrossa. Samþykkt að Búnaðarsambandið mundi taka saman vinnureglu fyrir forðagæslumenn og senda sveitarstjórnum.
    Samþykkt var að skoða samstarf við Atvinnuþróunarsjóð og stefnt að því að fá framkvæmdastjóra á stjórnarfund á næsta ári.
    Þorfinnur lýsti ánægju sinni með þá þjónustu sem Búnaðarsambandið veitir í bændabókhaldi, skattframtalagerð og leiðbeiningar samfara því.
    Egill spyr hvort Búnaðarsambandið fái greitt fyrir þjónustu við Búbót. Sveinn greinir frá því að svo sé ekki. Egill telur eðlilegt að Búnaðarsambandið fái greitt fyrir þjónustu sem það veitir við forrit Bændasamtakanna.
    Samþykkt að ganga frá samningum við Landbúnaðarháskólann og RALA varðandi Tilraunabúið á Stóra Ármóti. Ennfremur að ganga frá samningi við Landbúnaðarháskólann um sameiginlegan starfsmann með Búnaðarsambandi Suðurlands.

Fundi slitið.

Ólafur Þór Þórarinsson
fundarritari


back to top