6. fundur – haldinn 28. ágúst

Stjórnarfundur BSSL 6/2014.

Á fundinn sem haldinn var í fundarsal BSSL mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson formaður, Jón Jónsson, Baldur Indriði Sveinsson og Gunnar Kr. Eiríksson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð. Grétar Hrafn Harðarson tilraunastjóri sat fundinn þegar umfjöllun var um Stóra Ármót.

1. Stutt spjall um stöðu landbúnaðarmála síðsumars. Kornið hefur tekið vel við sér eftir að sólin tók að sýna sig. Heyfengur er víðast mikill að vöxtum en gæðin eru breytileg. Grétar Hrafn fór yfir niðurstöður heyefnagreininga á Stóra Ármóti frá slætti eftir 20. júní en grös voru að byrja skrið um miðjan júní. Þessi dráttur á slætti hefur haft veruleg áhrif á efnainnihald heyjanna. Meltanleikinn er lægri og trénisgildin (NDF) hærri en við höfum átt að venjast. Ennfremur er próteininnihaldið lágt enda lækkar próteinið hratt þegar plantan þroskast. Það vantar nokkuð uppá að heyin fullnægi þörfum fyrir meginsteinefnin, Ca, P, Mg og Na, en það sjáum við oft þar sem vallarfoxgras er uppistaðan í túnunum. Mjólkurframleiðslan er enn mikil á Suðurlandi en neysla á mjólkurvörum eykst enn. Sala á fitugrunni er 7,4 % meiri miðað við 12 mánaða tímabil en á próteingrunni 2,5 % meira.

2. Sveinn lagði fram kostnaðaryfirlit fyrir fjárhúsbygginguna á Stóra Ármóti sem er 16 milljónir. Heildarkostnaður gæti farið í nærri 25 milljónir. Smiðirnir mæta aftur eftir nokkurt hlé í næstu viku. Verklok verða í haust.

3. Stuttlega var farið yfir helstu atriði sem snúa að kúasæðingum á Austurlandi en gert er ráð fyrir að Kynbótastöðin yfirtaki reksturinn um næstu áramót.

4. Farið var yfir bréf frá RML þar sem óskað er eftir endurskoðun á leigusamningi um bílaafnot. Sveinn greindi frá fundi sem haldinn var á Hvanneyri í gær um bílamálin en í kjölfar hans mun Búnaðarsambandið leigja út vsk bíla til RML frá og með 1. september. Leiguverð verður kr 80 á ekna km.

5. Framundan eru úttektir jarðabóta en umsóknir frá bændum þurfa að berast fyrir 10. september

6. Ragnar fór yfir drög um refaveiðar og minkaveiðar sem bændasamtökin sendu búnaðarsamböndunum til umsagnar.

Fleira ekki og fundi slitið
Sveinn Sigurmundsson

 


back to top