6. fundur 2001

Fundargerð



Stjórnarfundur 24. ágúst 2001

Þann 24. ágúst 2001 var haldinn stjórnarfundur BsSl. í húsi þess á Selfossi.  Allir stjórnarmenn mættir ásamt framkvæmdastjóra.


  1. Rætt um uppbyggingu og þróun tilraunastarfs í nautgriparækt í framhaldi af tillögu nýafstaðins aðalfundar L.K. Ákveðið að senda bréf til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, þar sem óskað er eftir afstöðu hans til tillögu LK um þessi mál og leitað eftir afstöðu þeirra til viðræðna um samstarf við BsSl og Rala um tilraunastarf í nautgriparækt á Stóra-Ármóti. Samrit sent Rala og LK. 

  2. Kynnt tillaga Þrastar Aðalbjarnarsonar um gerð aðstöðu fyrir sauðféð í hlöðunni á Stóra-Ármóti, en þar er gert ráð fyrir að féð liggi á hálmi. Stjórnin samþykkir að farið sé út í þessar framkvæmdir. Tillaga kom fram frá Guðna Einarssyni um að huga að því hvort hægt sé að fella sauðfjáræktina á Stóra-Ármóti undir reglur lífrænnar ræktunar.

  3. Rætt um áframhaldandi uppbyggingu á Stóra-Ármóti, en þar vantar vélahús. Ákveðið að fá tillögu frá Byggingastofnun landbúnaðarins um gerð vélahúss.

  4. Sveinn skýrði frá gangi búrekstursins á Stóra-Ármóti, en þar standa fyrir dyrum bústjóraskipti. Aukna áherslu þarf að leggja á stöðugri fréttaflutning frá starfseminni. Talin ástæða til að gera athugun á fleiri mottugerðum í bása. Einnig talin ástæða til að athuga hagkvæmni þess fyrir tilraunabúið að kaupa mjólkurkvóta.

  5. Rætt um búrekstrartengda ráðgjöf, og skiptar skoðanir þeirra sem að verkefninu vinna um hjálpartækin sem á að nota við þessa ráðgjöf. Í ljósi þeirrar miklu vinnu sem fer í hvern einstakling í verkefninu er eðlilegt að greiðslur samkvæmt búnaðarlögum berist jafnar en í lok hvers árs.

  6. Fram kom að vaxandi eftirspurn er eftir bókhalds- og skattalegri ráðgjöf. Á álagstímum tekur þetta of míkinn tíma frá ráðunautum og því er þörf á sérstökum starfsmanni frá áramótum í þetta verkefni. Skýr skil þurfa að vera á milli þessarar þjónustu og ráðgjafaþjónustunar. Fram kom að enn hefur ekki fengist viðurkenning Bændasamtakanna á þeirri þjónustu sem Búnaðarsambandið veitir við Búbótarforritið. Sveini og Eggert falið að fylgja málinu eftir.

  7. Sveinn kynnnti nýtt tölvuforrit fyrir félagatal, en hægt er að klúfa það upp eftir aðildarfélögum, verkefnum o.fl.

  8. Sveinn sagði frá fyrirhugaðri sauðfjár- og ullarsýningu í New York sem Sauðfjársæðingastöðin er aðili að.

  9. Sveinn skýrði frá helstu hauststörfum svo sem síðsumarsýningu hrossa, hrútasýningum, námskeiðum, fundum o.fl. Runólfur Sigursveinsson kom á fundinn og skýrði frá þátttöku á þeim gæðastýringanámskeiðum sem haldin hafa verið. Egill lagði til að kannað yrði hvort hægt væri að halda fjármálanámskeið fyrir bændur. Þar yrði fjallað um lánamál, fjárfestingar o.þ.h.

  10. Önnur mál: Rætt um hvenær væri tímabært að hefja undirbúning að 100 ára afmæli Búnaðarsambandsins, en ljóst er að sumt sem gert yrði, gæti þurft langan aðdraganda. Rætt var um bændaferðir sem Búnaðarsambandið gæti staðið fyrir. Rætt var um mismunandi árangur framræslu eftir jarðvegsgerð mýranna. Rætt var um kjarasamningsgerð við starfsmenn búnaðarsambandanna og hvernig að henni skuli staðið. Formanni og framkvæmdastjóra falið að skoða þetta mál. 

Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið.


Guðmundur Stefánsson,
fundarritari.


back to top