5. fundur 2012 – haldinn 12. október

Stjórnarfundur BSSL 5/2012

Á fundinn sem haldinn var í fundarsal Búnaðarsambandsins mættu Guðbjörg Jónsdóttir, Erlendur Ingvarsson, Ragnar M. Lárusson, Jón Jónsson og Gunnar Kr. Eiríksson. Þá sat Sveinn Sigurmundsson fundinn.

1. Farið var yfir tillögur Ágústar Þorbjörnssonar um endurskiplagningu ráðgjafaþjónustunnar. Málið mikið rætt og fundarmenn sammála um að huga vel að því að verkefnum sem búnaðarsamböndunum séu ætluð eftir breytinguna fylgi fjármunir. Fram kom að BÍ þarf að semja við stjórnir búnaðarsambandanna um þann hluta búnaðargjaldsins sem nýju fyrirtæki er ætlað.

2. Ákveðið var að halda fund með búnaðarþingsfulltrúum af Suðurlandi miðvikudaginn 17. október til að ræða tillögur Ágústar en þær verða til umfjöllunar og ákvörðunar á aukabúnaðarþingi þann 29. október nk.

3. Væntanlegu aukabúnaðarþingi er m.a. ætlað að ákveða heimilisfang nýs félags fyrir ráðgjafaþjónustuna, verði tillagan samþykkt. Stjórn BSSL bendir á að þar sem flestir bændur og væntanlegir starfsmenn eru búsettir á Suðurlandi sé eðlilegt að höfuðstöðvar ráðgjafaþjónustunnar verði á Selfossi. BSSL býður upp á góða starfsaðstöðu í skrifstofuhúsnæði sambandsins.

4. Sveinn lagði til að sæðingagjöld hjá Kynbótastöð Suðurlands hækki um 400 kr. á kú á ársgrunni. Gjaldið var 1.600 kr. á kú en hækkar þá í 2.000 kr á kú. Greitt er af kúafjölda samkvæmt forðagæsluskýrslum, óháð fjölda sæðinga pr. kú og sæðingar á kvígum fríar. Fyrir bú með 40 kýr er þetta hækkun úr 64 þúsundum á ári, í 80 þúsund á ári. Ástæður eru m.a mikil hækkun á sæði og rekstrarvörum og svo eru minni fjármunir úr búnaðarlagasamningi hér á Suðurland vegna margendurtekinna ályktana frá Búnaðarþingi og aðalfundum LK um jöfnun á aðstöðumun bænda gagnvart sæðingakostnaði á landinu.

5. Þá var lögð fram svohljóðandi bókun frá Félagi kúabænda á Suðurlandi.
„Félag kúabænda á Suðurlandi varar við því að samstarf Landbúnaðarháskóla Íslands og Búnaðarsambands Suðurlands um tilraunabúið að Stóra-Ármóti  sé stefnt í tvísýnu. Með   drögum  að lagabreytingar sem  nú  liggja fyrir og snerta mjög  starfsemi LbhÍ. En þar er gert ráð fyrir að lögum um opinbera háskóla verði breytt þannig að LbhÍ verði hluti af þeim lögum eins og HÍ og HA hafa verið.  Frá sama tíma verði felld út lög um búnaðarfræðslu og kafli úr lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Stóra- Ármót er eina tilraunabúið í landinu þar sem hægt er að framkvæma fóðurtilraunir á mjólkurkúm.  Nú er samstarfssamningur í gildi á milli Bssl og Lbhí um tilraunabúið að Stóra- Ármóti. Hann kveður m.a. á um að starfandi  sé  sérfræðingur í fóðurfræði og rannsóknarmaður.Félagið leggur mikla áherslu á að áfram verði rekið öflugt tilraunastarf í nautgriparækt að Stóra Ármóti. Ásamt tilraunum í jarðrækt  með það í huga að efla hlutdeild heimaaflaðs fóðurs til mjólkurframleiðslu.“

Stjórnin þakkar þann stuðning sem FKS sýnir gagnvart tilraunabúinu en jafnframt er mjög mikilvægt að tilraunastarf sé sem öflugast.

Sveinn Sigurmundsson


back to top