100 ára afmælisrit BSSL komið út

Í ár fagnar Búnaðarsamband Suðurlands 100 ára afmæli sínu og af því tilefni er nýkomið út 100 ára afmælisrit Búnaðarsambandsins þar sem rakin er saga sambandsins s.l. 100 ár. Bókina ritaði Páll Lýðsson heitinn, bóndi og sagnfræðingur í Litlu-Sandvík. S.l. mánudagskvöld afhenti Guðbjörg Jónsdóttir, formaður BSSL, þeim Elínborgu Guðmundsdóttur, ekkju Páls Lýðssonar og Þorfinni Þórarinssyni, fyrrverandi formanni BSSL, fyrstu eintökin af bókinni.

Guðbjörg sagði við þetta tækifæri að það væri mikill heiður að fá að afhenda þeim fyrstu eintökin. Páll hefði verið afkastamikill rithöfundur og það væri ekki síst að þakka þeim skilningi og stuðningi sem Elínborg hefði veitt Páli í störfum sínum sem bónda, félagsmála- og fræðimanni. Þá sagði hún jafnframt að í formennskutíð Þorfinns hefði verið lögð drög að og hafist handa við ritverkið sem að mestu hefði verið lokið á árunum 2004-5.

Búnaðarsamband Suðurlands vill ítreka þakkir sínar til Páls Lýðssonar fyrir ritun sögunnar og sonar hans, Lýðs Pálssonar, sem lauk við verkið eftir að faðir hans féll frá s.l. vor. Örlögin höguðu því nú svo að fyrsta verk Páls reyndist vera ritstjórn 50 ára afmælisrits Búnaðarsambandsins og hans hinsta verk var ritun 100 ára afmælisrit sambandsins.

Afmælisrit Búnaðarsambandsins verður til kynningar og sölu á Landbúnaðarsýningunni á Hellu um næstu helgi.


back to top